Fertugur maður fannst á lífi eftir fimm ár í felum

03.08.2020 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd: Etienne Godiard - Unsplash
Ricardas Puisys, fertugur Lithái sem ekkert hefur spurst til síðan 2015, fannst á lífi í skógi í Cambridge-skíri skammt frá heimili sínu í byrjun júlí. Lögregluyfirvöld biðu í mánuð með að greina frá fregnunum til þess að standa vörð um velferð Puisys.

Puisys hefur verið saknað frá því í september 2015. Í nóvember sama ár hófst lögreglurannsókn vegna mannshvarfsins. Síðla árs 2015 var maður handtekinn, grunaður um að hafa orðið Puisys að bana. Honum var þó sleppt skömmu síðar. 

Áður en Puisys lét sig hverfa starfaði hann í verksmiðju í bænum Chatteris, skammt norður af Cambridge. Hann hafði verið ráðinn til verksmiðjunnar í gegnum leigumiðlun og talið er að hann hafi flúið vegna meintrar misnotkunar af hálfu vinnuveitanda síns. 

Í nóvember urðu aðstandendur Puisys varir við það að Facebook-aðgangur hafði verið stofnaður í hans nafni. Þar mátti jafnframt finna ljósmyndir af Puisys. Lögregla ákvað í kjölfarið að hefja leit sína á ný.

Puisys dvaldist á felustað í lággróðri í grennd við bæinn Wisbech, þar sem hann bjó áður en hann lét sig hverfa. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi