Eiga erfitt með að hemja „Eplis eldinn“ í Kaliforníu

03.08.2020 - 09:46
Mynd: EPA-EFE / EPA
Meira en 2.200 slökkviliðsmenn reyna nú að hemja útbreiðslu gróðurelda sem æða áfram nánast stjórnlaust í suðurhluta Kaliforníu. Þeir eru kallaðir „Eplis-eldurinn“ eftir götunni Apple Tree Lane sem er nálægt upptökunum. Sumarið hefur verið heitt og þurrt og því er óttast að slökkvistarfið eigi eftir að reynast erfitt.

Eldarnir kviknuðu á föstudag nærri borginni San Bernardino.  Meira en 8 þúsund hektarar lands hafa þegar brunnið. 

Reykur frá eldunum sést víða og hafa nærri átta þúsund  íbúar þurft að yfirgefa heimili sín. Ekki er vitað hvenær þeir fá að snúa aftur.  

Slökkviliðsmönnum hefur gengið illa að ráða niðurlögum eldsins og kórónuveirufaraldurinn gerir þeim erfitt fyrir, gæta þarf að sóttvörnum til að koma í veg fyrir útbreiðslu smits. 

Yfirvöld telja að rekja megi gróðureldanna til íkveikju og hefst rannsókn á upptökum þeirra í dag.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi