Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

23 á neyðarmóttöku í júlí - eitt meint brot um helgina

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Eitt meint kynferðisbrot kom inn á borð Neyðarmóttöku Landspítala fyrir þolendur kynferðisbrota um helgina. Í júlí leituðu þangað 23 sem brotið hafði verið á. Hrönn Stefánsdóttir hjúkrunarfræðingur og verkefnastjóri á neyðarmóttökunni segir að það sé meira en þrefalt fleiri en í sama mánuði í fyrra. Fimm þeirra sem leituðu á neyðarmóttökuna í júlí hafa nú lagt fram kæru.

Hrönn segir að hugsanlega megi búast við því að fleiri mál komi upp núna í vikunni. Það sé reynsla starfsfólks neyðarmóttökunnar að það gerist í vikunni á eftir um verslunarmannahelgar. „En síðustu ár hafa ekki verið fleiri brot um verslunarmannahelgi en um venjulega helgi í Reykjavík,“ segir Hrönn.

Hún segir að rúmlega þrefalt fleiri hafi leitað til neyðarmóttökunnar í nýliðnum júlímánuði en í sama mánuði í fyrra. 

„Í júlí hafa komið til okkar 23 brotaþolar.  Miðað við árið 2019, þá voru sjö einstaklingar eða sjö brotaþolar sem leituðu til okkar. Þannig að það er talsverð fjölgun á milli ára.“

Hrönn segir að fimm af þessum 23 hafi nú lagt fram kæru og ekki sé ólíklegt að fleiri muni gera það. Spurð hvort hægt sé að skýra þessa miklu fjölgun brota á milli ára segir hún erfitt að benda á eitthvað eitt í því sambandi. 

„Það er erfitt að skýra út afhverju einstaklingar brjóta á fólki. En það er bara með tölfræði, hversu margir koma á milli mánaða - það er bara mjög misjafnt. Og ef maður skoðar yfir árin á síðustu árum, þá er engin regla í þessu.“