Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

16 með sama afbrigði veirunnar en ekki neina tengingu

03.08.2020 - 17:28
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir að það eina sem hafi verið ákveðið eftir fund hans með þríeykinu síðdegis í dag sé að skimun verður nú frekar beint að fólki sem er í kringum þá sem hafa sýkst í stað slembiúrtaks. Raðgreining Íslenskrar erfðagreiningar hefur leitt í ljós að 16 einstaklingar sem ekki hefur tekist að tengja með neinum hætti eru með sama stökkbreytingamynstur af veirunni „Og það er þessi eina tegund af veirunni sem er að leggja undir sig landið.“

Þríeykið svokallaða ásamt fulltrúum úr smitrakningateyminu áttu fund með Kára Stefánssyni síðdegis í dag.  Tilgangurinn var „að ræða ástandið og reyna gera sér í hugarlund hvað gerist næst og hvað við hjá Íslenskri erfðagreiningu gætum lagt af mörkum til að afla upplýsinga til að ná utan um þetta,“ segir Kári.

Hann telur óskynsamlegt að ætla að veiran nú sé eitthvað slappari en hún var í vor og raunar sé engin ástæða til að ætla að svo sé. Menn séu að skima meira núna og því séu fleiri að greinast sem verða lítið lasnir.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorsteinn Magnússon - RÚV
Þríeykið ræður ráðum sínum fyrir fundinn með Kára Stefánssyni.

Hann segir að mat manna hafi verið að næstu tveir til þrír dagar skeri úr um hvernig brugðist verði við og hvort breyta þurfi skilmálum þess hvernig fólk geti hagað sér.

Hann telur að næsta vika eða tíu dagar verði mjög afgerandi. „Annað hvort hjaðnar þetta smit eða það verður sprenging og þetta breiðist út sem ný bylgja af þessum faraldri. Þetta er svona 50/50.“

Raðgreining Íslenskrar erfðagreiningar hefur leitt í ljós að það eru sextán smit í samfélaginu sem eru algjörlega ótengd en eru með sama stökkbreytingamynstur.  Kári segir að það sé því ekki þannig að hingað sé að leka inn veira með fólki frá útlöndum eða sleppa fram hjá skimun á landamærunum. „Það er bara þessi eina tegund af veirunni sem er að leggja undir sig landið.“

Hann segir að eina niðurstaðan af þessum fundi hafi verið sú að beina frekar skimun að fólki sem hefur verið í kringum þá sem eru sýktir í stað slembiúrtaks.  

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV