Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tveir í einangrun og tæp 5% allra í sóttkví á Akureyri

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Tveir eru í einangrun og þrjátíu og fimm eru í sóttkví á Norðurlandi eystra. Lögreglan á Norðurlandi eystra birti í dag töflu um staðsetningu þeirra eftir póstnúmerum. Þar kemur fram að þeir tveir sem greindust með virkt smit í gær eru búsettir á Akureyri og flestir þeirra sem eru í sóttkví í landshlutanum, eða 28, eru það einnig.

Ferðamaður sem greindist með COVID-19 fyrir helgi eftir að hafa fengið neikvæða niðurstöðu úr landamæraskimun er í einangrun í farsóttahúsi á Akueyri. Fjölskylda hans er í svokallaðri biðeinangrun en þau eru ekki með veiruna. Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður farsóttahúsa, staðfestir þetta við fréttastofu. Ekki er búið að raðgreina og rekja nýju smitin og því ekki vitað að svo stöddu hvort þau tengist.

Þrír eru í sóttkví í Eyjafjarðarsveit, tveir á Raufarhöfn, einn er í sóttkví á Laugum og einn á Grenivík. Samtals telur þetta 37 manns. Á landinu öllu eru 569 í sóttkví og eru því 6,2 % þeirra á Norðurlandi eystra. 

Uppfært 20:30: Upphaflega var fyrirsögnin að þrír væru í einangrun á Akureyri. Rétt er að tveir eru í einangrun á Akureyri. Einn er ferðamaður og í einangrun í farsóttahúsi, annar er einstaklingur búsettur á Akureyri.