Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Telja að bóluefni Finna verði tilbúið haustið 2021

02.08.2020 - 12:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vísindamenn við Háskólann í Helsinki í Finnlandi hafa að undanförnu unnið að þróun á bóluefni við COVID-19 og ætla að næstunni að prófa það á dýrum. Annar hópur vísindamanna í borginni Tampere í Finnlandi er einnig að þróa bóluefni við farsóttinni en er ekki eins langt á veg kominn.

Vísindamennirnir segja að bóluefnið verði tilbúið haustið 2021, að því er finnska ríkisútvarpið, YLE, greinir frá. Í fréttinni segir einnig að það sé nokkuð fyrr en áætlað er að önnur bóluefni, sem verið er að þróa í heiminum við COVID, verði tilbúin til að setja á markað.

Ekki er víst að hópurinn við Háskóla Helsinki geti framleitt allt það magn bóluefnis sem til þarf í Finnlandi. Þeir ætla engu að síður að halda þróuninni áfram. Greint hefur verið frá því að heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti Finnlands hafi tilkynnt að mestar vonir séu bundnar við þróun á bóluefni á alþjóðavísu, en að það styðji einnig við þróunina í heimalandinu. Haft er eftir Kalle Saksela, prófessor við háskólann, sem leiðir þróunina, að eins og með hina árlegu inflúensu, sé leitast við að komast að því hvað virki í baráttunni við sjúkdóminn. „Og ég er viss um að finnska bóluefnið verður þar á meðal í framtíðinni,“ segir hann. 

Í borginni Tampere í suðvesturhluta Finnlands er einnig hópur vísindamanna að þróa bóluefni við COVID-19. Þeir eru þó ekki komnir eins langt á veg og hópurinn í Helsinki.