Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tæplega tíu prósent Skagamanna skimuð í dag

02.08.2020 - 19:42
Tæplega tíu prósent Skagamanna voru skimuð fyrir kórónuveirunni á Akranesi í dag. Bæjarstjórinn segir að ótti hafi gripið um sig þegar hópsýking kom upp, en hann gleðst yfir samheldni bæjarbúa sem brugðust hratt og vel við beiðni um sýnatöku.

Ákveðinn ótti greip um sig

Tvær COVID-19 hópsýkingar eru nú í samfélaginu, önnur á Akranesi þar sem sjö vinnufélagar reyndust smitaðir af veirunni og þrír ættingjar sem tengdust þeim. Uppruni smitsins er enn óljós. Íslensk erfðagreining skimaði í dag íbúa á Akranesi til að fá úr því skorið hvort smitið hafi dreift sér.

„Auðvitað greip um sig ákveðinn ótti hjá fólki en það er svo sannarlega búið að mæta þessum ótta með því að hér hefur Íslensk erfðagreining í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Vesturlands farið í það verkefni að skima,“ sagði Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness.

„Þessi skimun er aðallega gerð til að meta áframhaldandi aðgerðir fyrir stjórnvöld og hvort að grípa þurfi til frekari ráðstafana. Til að meta svona er tekið slembiúrtak til að meta hvort það séu komin dreifð smit á þessum svæðum þar sem hafa verið að koma upp smit,“ sagði Kristín Eva Sveinsdóttir, umsjónarmaður skimunar hjá Íslenskri erfðagreiningu. „Þetta gekk mjög vel í dag. Mjög gott flæði, vant fólk, og engin vandamál komu upp.“ 

Vænta má niðurstöðu á morgun

Upphaflega stóð til að taka um 450 sýni en vegna góðra viðbragða Skagamanna var bætt í úrtakið og á endanum voru um sex hundruð sýni tekin. Niðurstöðu úr skimuninni er að vænta innan sólarhrings. 

„Ég er einstaklega glaður að sjá Skagamenn taka þessu verkefni virkilega vel og þessu ákalli um að mæta á svæðið og það er einstakt að sjá stemninguna sem er hérna á svæðinu, fólk virkilega vill leggja til samfélagsins,“ sagði Sævar Freyr.

„Ef það er smit í gangi þá munum við takast á við það sama en ef það er ekki þá er það auðvitað bara gleðiefni.“