Svör við óleystum gátum í dauðadjúpum sprungum

Mynd: RÚV - Bjartur / Samsett mynd

Svör við óleystum gátum í dauðadjúpum sprungum

02.08.2020 - 14:07

Höfundar

Hraungjótur á Íslandi eru hyldýpi sem samkvæmt almannarómi geyma ýmsar beinagrindur. Í Tíbrá Ármanns Jakobssonar finnst lík í hraunsprungu, en það hefði sjálfsagt aldrei fundist ef sérstakar aðstæður hefðu ekki komið til. Undirliggjandi er sá óþægilegi grunur að í hraungjótum landsins megi finna svör við ýmsum óleysum gátum, segir Maríanna Clara Lúthersdóttir gagnrýnandi.

Maríanna Clara Lúthersdóttir skrifar: 

Lengi tekur sjórinn við segir gamalt máltæki – sem á raunar sífellt verr við nú þegar ljóst er að það gerir hann einmitt ekki. Hraungjótur á Íslandi eru annað hyldýpi sem samkvæmt almannarómi taka lengi við og geyma ýmsar beinagrindur – í bókstaflegri merkingu orðsins. Í Tíbrá Ármanns Jakobssonar finnst lík í hraunsprungu, en það hefði sjálfsagt aldrei fundist ef sérstakar aðstæður hefðu ekki komið til og undirliggjandi er sá óþægilegi grunur að í hraungjótum landsins megi finna svör við ýmsum óleysum gátum.

Af hverju breytir fólk eins og það gerir?

Tíbrá er þriðja glæpasaga Ármanns sem hefur komið víða við í íslenskri bókmenntaflóru en hann hefur skrifað fræðibækur, fagurbókmenntir, barnabækur, sögulegar skáldsögur, reyfara og pistla. Hér leiðir hann í þriðja sinn fram lögregluteymið úr fyrri glæpasögum sínum; Útlaganum og Urðarketti. Það eru þau Bjarni, Kristín, Njáll og Margrét sem leysa gátuna og eru í forgrunni sögunnar – en eins og áður fá bæði illvirkjar og fórnarlömb einnig töluvert pláss í frásögninni.

Líkt og í fyrri glæpasögunum liggur styrkur frásagnarinnar ekki í æsispennandi atburðarás heldur fremur í persónusköpun og tengslum milli persónanna. Af hverju breytir fólk eins og það gerir og hvernig verður manneskja eins og hún er, eru spurningarnar sem höfundur leggur til grundvallar. Angar glæpsins teygja sig aftur til fortíðar en þar liggja gjarnan lyklarnir að ráðgátum Ármanns.

Óuppgerð mál og skotvopn ekki góð blanda

Í upphafi bókar fara fjórir mjög ólíkir menn saman í skotveiði en mikið magn af áfengi, óuppgerð mál og byssur eru ekki góð blanda eins og kemur í ljós. Guðmundur er sjálfskipaður foringi hópsins og vanasti veiðimaðurinn – en einnig sá drukknasti og vanstilltasti.

Elsti og besti vinur hans, Ágúst, er öllu rólegri. Hann er leiðitamur og seinþreyttur til vandræða, hlær ekki að meiðandi bröndurum vinar síns, en stöðvar þá ekki heldur. Daníel, mágur Guðmundar, er ólíklegur félagi þeirra, fíngerður og hlédrægur háskólakennari og alls enginn veiðimaður. Sá fjórði er Markús, ungur maður, fyrrum nemandi Daníels og nú hans besti vinur.

Daníel og Markús eru jafn hógværir og lágstemmdir og Guðmundur er hávær og æstur. Meðan sá síðastnefndi drekkur eins og svampur og lætur öllum illum látum þegja hinir og virðast ætla að bíða af sér storminn. Þegar drukkin og æst kona kemur skyndilega inn í bústaðinn virðist óveðrið óumflýjanlegt.

Hvað gerðist raunverulega í bústaðnum – en ekki síður - af hverju það gerðist – eru spurningar sem lögregluteymið þarf að svara - helst áður en líkin fara að hrannast upp. Hér er morðið framið í fyrsta kaflanum og lesandinn fær að fylgjast með verknaðinum frá upphafi til enda svo allt virðist liggja ljóst fyrir. Eins og titill skáldsögunnar vísar í er þó ekki allt sem sýnist og höfundur villir okkur sýn um stund.

Lesandinn fær að kynnast lögreglufólkinu smám saman

Ármann hefur haft þann háttinn á að leyfa lesandanum að kynnast lögreglufólkinu sínu smám saman eftir því sem sögunum vindur fram. Í Urðarketti var lögreglukonan Kristín í forgrunni og er það áfram hér þótt ekki fylgi sagan henni eins langt aftur í tímann eða eins djúpt inn í vitund hennar og í fyrri bókinni.

Hér er kynnt aftur til sögunnar hin látna og goðsagnakennda Þórhildur, sem er eldri systir Margrétar og nokkurs konar velgjörðakona Kristínar. Saga hennar fléttast á óvæntan máta inn í sakamálið og tengir samstarfskonurnar um leið saman.

Kristín heldur líka áfram að rækta sambandið við Tristan, yngri bróður sinn sem hún kynntist í Urðarketti, og ungan mann að nafni Kiljan. Þótt glæpasögurnar þrjár tengist innbyrðis og höfundur fylli smám saman í eyðurnar í kringum persónur sínar er því þó ekki þannig farið að þekking á fyrri bókunum sé nauðsynleg til þess að skilja þessa.

Ofurviðkvæmt valdajafnvægi heldur lesandanum á tánum

Ármann hefur gjarnan unnið með mjög skýrt afmarkað rými í glæpasögunum – lítið þorp á landsbyggðinni í Útlaganum og svo stofnun við Háskóla Íslands í Urðarketti. Hér er sviðið stærra og opnara og tengsl persónanna óvæntari og langsóttari eins og lögreglufólkið kemst að raun um.

Það er dálítill missir að skemmtilegu sögusviði hinna bókanna en Ármann vinnur hins vegar vel með tengslanet sinna aðalpersóna. Mennirnir fjórir sem leggja af stað í veiðiferðina eru afskaplega ólíkir og ofurviðkvæmt valdajafnvægið í samskiptum þeirra á milli heldur lesandanum á tánum.

Höfundurinn hefur gott vald á ólíku málfari og í hópi lögreglufólksins talar aldursforinginn Bjarni afskaplega kjarngóða íslensku sem hinn ungi Njáll á stundum í vandræðum með að skilja fullkomlega. Hins vegar fellur höfundur stöku sinnum í þá gryfju að láta aðrar persónur tala ansi mikið gullaldarmál líka – jafnvel sömu persónur og á öðrum stundum skilja illa talanda Bjarna. Engu að síður er hnyttni Ármanns og leikur með tungumálið eitt af aðalsmerkjum skrifa hans og bráðskemmtileg aflestrar þegar vel tekst til .

Höfundi fer fram með hverri bók, uppbyggingin er öruggari og atburðarásin þéttari án þess að það komi niður á persónusköpun og samböndum persónanna. Tíbrá er ekki (ekki frekar en fyrri glæpasögur höfundar) æsispennandi tryllir, en ófyrirsjáanlegur og skemmtilegur reyfari sem gengur ansi vel upp.

 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Allir taka frásögn sálfræðingsins með fyrirvara

Bókmenntir

Bóksali í kulda og trekki

Bókmenntir

Af hverju eru glæpasögur svona vinsælar?