Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Segir Bandaríkjamenn ekki hafa beitt sig þrýstingi

Sigurður Ingi í kvöldfréttum 2. ágúst 2020 um HUAWEI
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, segist taka undir orð seðlabankastjóra. Mynd: RÚV
Samgönguráðherra segir það eiga eftir að koma í ljós hvort hann beiti heimild í nýju lagafrumvarpi til að banna hér fjarskiptabúnað frá löndum utan NATO eða EES. Hann segist sjálfur ekki hafa verið undir þrýstingi frá Bandarískum yfirvöldum um að sneiða hjá búnaði kínverska fyrirtækisins Huawei.

Ráðherra segir að heimildin sé sett inn í frumvarpið vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar 5G-fjarskiptakerfisins og af ástæðum sem lúta að þjóðaröryggi og almannavörnum. Verði frumvarpið samþykkt óbreytt þyrfti hann, áður en hann bannaði tiltekinn búnað, að afla sér umsagna frá dómsmála- og utanríkisráðherra, sem yrðu undanþegnar upplýsingarétti.

Sérðu fyrir þér að þú munir beita þessari heimild?
„Nú er einfaldlega sú vinna í gangi hjá Póst- og fjarskiptastofnun og hjá ráðuneytunum að meta hvaða tilteknu hlutar þessa kerfis séu með þessum hætti og svo á eftir að koma í ljós hverjir bjóða fram sín kerfi í það, þannig að það verður að koma í ljós,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson.

Þú vísar til þjóðaröryggis - ertu þá að tala um hugsanlegar njósnir eins og Huawei hefur verið sakað um?
„Við erum fyrst og fremst bara að vísa til þess að við erum auðvitað með þjóðaröryggisstefnu og við erum líka með almannavarnir og við þurfum að tryggja það ... við erum erum í samstarfi vestrænna ríkja innan Nató og við þurfum að uppfylla alls konar slíkar skyldur, kvaðir, sem við gjarnan viljum gera, og hluti af því er að vera með regluverk sem getur tekið utan um það og þess vegna fórum við þessa leið.“

Fram hefur komið að bandarísk yfirvöld hafi þrýst mjög á Evrópuríki að kaupa ekki fjarskiptabúnað frá Huawei. Forstjóri Vodafone segir fulltrúa bandaríska sendiráðsins hér hafa beitt íslensk fjarskiptafyrirtæki miklum þrýstingi í þá veru og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, varaði Íslendinga við fyrirtækinu í heimsókn sinni hingað í fyrra. Sigurður Ingi segir erlend ríki ekki hafa beitt hann neinum þrýstingi í málinu.

„Það hefur ekkert borist til mín neitt slíkt þannig að ég get ekki svarað fyrir það.“
- Ekki komið nein tilmæli frá Bandarískum yfirvöldum?
„Það hefur enginn þrýstingur komið til mín sem ráðherra fjarskiptamála eða inn í ráðuneytið.“