Mikil líkindi með þróun smita nú og í upphafi faraldurs

02.08.2020 - 13:00
Mynd: Landspítalinn / Landspítalinn
Nokkuð mikil líkindi eru með þróun smita nú og í upphafi faraldursins, að sögn Thors Aspelund prófessors í líftölfræði, sem hefur umsjón með spálíkani sem heilbrigðisyfirvöld notast við til að spá fyrir um þróun COVID-19 smita. Hann segir ekki hægt að segja fyrir um með vissu fyrr en um miðjan mánuð hvort um er að ræða tvö einangruð hópsmit, eða hvort veiran hafi dreift sér víðar um samfélagið líkt og gerðist í upphafi faraldursins.

Thor segir að ef ekki náist að stöðva útbreiðsluna geti ástandið um miðjan ágúst orðið eins og það var um miðjan mars. Sóttvarnaraðgerðir nú séu þó meiri en voru í byrjun mars og ættu að geta stöðvað útbreiðsluna og hann segist bjartsýnn á að það muni takast.

Hann segir ekki enn ljóst hvort um sé að ræða aðra bylgju faraldursins hér og annars staðar í Evrópu, eða hvort veiran sé frekar að ná inn á ný svæði, eða hvort smitin sem upp eru að koma nú megi flokka sem hópsýkingar. 

„Ég er ekki alveg viss með þetta ennþá, en auðvitað er eitthvað nýtt í kortunum, það er alveg ljóst, og við erum að sjá það í kringum okkur þannig að við þurfum aðeins bara að bíða og sjá hvert þetta stefnir,“ segir Thor.

„Þetta er ekkert svo ólíkt að því leyti að það hefur náðst hérna smit inn í þjóðfélagið, það er alveg klárt,“ segir Thor. Það sem sé ólíkt sé að nú kunnum við betur að takast á við veiruna. Þar sé smitrakning í lykilhlutverki og raðgreining Íslenskrar erfðagreiningar, sem sé mikilvæg til að hægt sé að átta sig á því hvort smitin komi úr ólíkum áttum eða flokkist sem hópsmit.

Aðspurður segir hann ástandið nú vissulega áhyggjuefni því veikindin séu svo alvarleg. Honum finnst þó allir tilbúnir til þess að takast á við þetta og segir jákvætt að heilsugæslan sé með átak í töku sýna.

Spurður hvort hann hafi séð þessa þróun fyrir segir hann: „Við héldum að við myndum ná að vera búin að klára þetta hérna innanlands í júlí og það stóðst alveg, við vorum búin að ná út úr þjóðfélaginu. Svo kemur hún auðvitað einvhern veginn til baka og það var kannski mjög erfitt að sjá það fyrir,“ segir hann. Gert hafi verið ráð fyrir einhverjum hópsmitum en hann sé ekki alveg búinn að úrskurða hvort þessar sýkingar nú flokkist sem tvö hópsmit eða hvort veiran sé farin af stað í samfélaginu.  „Það er ekki alveg hægt að segja til um það ennþá,“ segir Thor.

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi