Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heimsóknir á Hofstaði verða að bíða betri tíma

02.08.2020 - 15:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Allir fjórir starfsmenn Hofstaða í Mývatnssveit eru í sóttkví, að sögn Kristínar Huldar Sigurðardóttur, forstöðumanns Minjastofnunar Íslands. Starfsfólkið starfar á vegum Háskóla Íslands og dvelst í tvær vikur á Hofstöðum þar sem það vinnur að fornleifauppgrefti og rannsóknum.

Starfsfólkið mun halda sig að Hofstöðum alla vikuna og ekki umgangast annað fólk. Kristín segir íbúa á svæðinu og ferðamenn gjarnan gera sér ferð að Hofstöðum til að skoða fornleifauppgröftinn. „En heimsóknir verða að bíða betri tíma,“ segir hún.

Ekkert fjórmenninganna hefur sýnt nein merki um veikindi og öll halda þau áfram störfum til 7. ágúst. Þau verða í sóttkví þangað til. Kristín segir að tilkynning um þetta hafi verið send á Facebook-hóp íbúa í Mývatnssveit til þess eins að benda fólki á að fara ekki að skoða fornleifauppgröftinn á meðan starfsfólkið er í sóttkví. 

Viðamiklar fornleifarannsóknir hafa farið fram á Hofstöðum um árabil og mörg hundruð manns hafa komið að rannsóknum þar. Enda er þar merkileg minjaheild sem rekja má aftur til víkingaaldar. Nú starfa þar tveir fornleifafræðingar og tveir háskólanemar.