Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hádegisfréttir: Þrettán ný kórónuveirusmit

02.08.2020 - 12:13
Þrettán ný kórónuveirusmit greindust innanlands síðasta sólarhringinn. 72 eru nú í einangrun og 569 í sóttkví. Thor Aspelund prófessor í líftölfræði segir mikil líkindi með þróun smitanna nú og í upphafi faraldursins.

Verkferlar verða endurskoðaðir hjá heilsugæslunni eftir að í ljós kom að sýktu fólki var neitað um sýnatöku. Framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að kanna þurfi hvað fór úrskeiðis.

 

Hamfaraástandi hefur verið lýst yfir í Victoriu fylki í Ástralíu, þar sem COVID-19 breiðist út á ógnarhraða. Næstu vikur verður útgöngubann í gildi um nætur í borginni Melbourne. 

Litlu mátti muna að verr færi þegar eldur kom upp í sumarbústað í Grímsnesi í nótt, að sögn slökkvistjóra. Maður og kona sem sváfu í samliggjandi bústað vöknuðu þegar reykur smaug inn til þeirra og voru flutt á spítala í Reykjavík.

Veðurhorfur: Breytileg átt þrír til tíu metrar, en hægviðri á morgun. Skýjað að mestu og væta af og til í flestum landshlutum. Hiti sjö til sextán stig, svalast á Vestfjörðum.