Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enginn smitaður í 612 manna úrtakinu á Akranesi

02.08.2020 - 22:14
Frá skimun ÍE á Akranesi hjá slembiúrtaki 2. ágúst 2020.
 Mynd: Almannavarnadeild ríkislögregl
Enginn reyndist smitaður af COVID-19 í skimun Íslenskrar erfðagreiningar á slembiúrtaki íbúa Akraness. Alls voru 612 íbúar skimaðir í dag, tæplega tíu prósent Skagamanna. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, greindi frá þessu við fréttastofu.

„Það voru allir 612 ofan af Akranesi negatífir,“ sagði Kári.

Íslensk erfðagreining sendir öllum sem tóku þátt í skimuninni skilaboð um niðurstöðuna á morgun.

Hefur miklar áhyggjur af hinu hópsmitinu

Kári sagði það uggvænlegt að 17 smit sem eru af sama veirustofni sé ekki hægt að rekja.

„Við höfum til dæmis 17 aðila sem eru smitaðir af sama stökkbreytingarmunstrinu og við höfum ekki hugmynd um hvernig þeir tengjast þannig að það hljóta að vera aðilar á milli þeirra sem eru smitaðir og úti í samfélaginu.“