Eldur kviknaði út frá einnota grilli í sumarbústað

02.08.2020 - 10:16
Mynd með færslu
 Mynd: Brunavarnir Árnessýslu
Eldur kviknaði út frá einnota grilli í sumarbústað við Sogsveg rétt við Þrastarlund um þrjúleytið í nótt. Maður og kona á miðjum aldri voru flutt með sjúkrabíl á Landspítalann vegna gruns um reykeitrun.

Samkvæmt upplýsingum frá Brunavörnum Árnessýslu stóðu yfir viðgerðir á húsinu og húsráðendur sváfu því í minna húsi við hliðina á því sem kviknaði í. Húsin tvö tengjast með palli. Talsvert tjón varð á bústaðnum.

„Það mátti ekki miklu muna,“ segir Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri, í samtali við fréttastofu. Sem betur fer vaknaði fólkið þegar talsverður reykur hafði borist inn í húsið þar sem það svaf. Þar var enginn virkur reykskynjari.

„Þarna hefði svo sannarlega getað farið illa. Bæði er ekki sjálfgefið að fólk vakni við þessar aðstæður án þess að það sé reykskynjari. Og þarna er mikill gróður svo við réttar aðstæður getur orðið mikill gróðureldur með tilheyrandi hættu,“ segir hann.

Fólkinu tókst að slökkva eldinn að mestu en fulltrúar frá Brunavörnum Árnessýslu komu á staðinn til að slökkva glæður og koma í veg fyrir að eldurinn tæki sig upp að nýju.

Pétur segir ástæðu til að brýna sérstaklega fyrir fólki notkun reykskynjara „og ekki síst meðferð einnota grilla, sem er nú bara vandasöm, og reglulega koma upp eldar með tilheyrandi vandræðum vegna þeirra“.

Fréttin var uppfærð eftir að upplýsingar bárust um eldsupptök. 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi