Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Djöfulleg en rosa kúl hljóð

Mynd: Aðsend mynd - Patrik Ontkovic / Aðsend mynd - Patrik Ontkovic

Djöfulleg en rosa kúl hljóð

02.08.2020 - 12:00

Höfundar

„Ég held að ég vilji bara að tónlistin sé sérstaklega eitthvað sem maður upplifir, kannski meira en að maður sé að hugsa rosalega mikið og hlusta,“ segir gítarleikarinn og tónskáldið Gulli Björnsson. Hann fer fyrir Íslands hönd á aðalhátíð Ung Nordisk Musik í Tampere í Finnlandi í sumar.

Gulli Björnsson er meðal þeirra sjö tónskálda sem taka þátt í aðalhátíð Ung Nordisk Musik fyrir Íslands hönd í ár. Hann tók þátt í Ögnun, verkefni Íslandsdeildar Ung Nordisk Musik, og frumflutti verkið Úr heljar ofni á tónleikunum á vegum deildarinnar í byrjun júlí. Verkið er samið fyrir gítar, hljómborð, slagverk, rafhljóð og myndband. Pétur Eggertsson ræddi við Gulla í Tengivagninum á Rás 1.

Tengdi hljóðin við eldfjöll

„Verkið er fyrir þrjú hljóðfæri sem mig langaði að semja fyrir svolítið lengi. Þegar ég var að fikta við þessi hljóðfæri þá fannst mér vera eitthvað svona djöfullegt en samt rosa kúl og dularfull hljóð sem maður getur fengið úr þessum hljóðfærum og ég tengdi þetta strax við einhvers konar eldfjöll og einhvers konar eldfjallalandslag. Þannig að ég var bara svona að grúska á Google og leita að einhverju til að lesa og veita mér innblástur og ég datt á ljóð eftir Eggert Ólafsson sem að kallast Ferða-Rolla þar sem hann fer yfir lýsingar sínar á Heklu. Þetta er alveg ótrúlega merkilegt ljóð, finnst mér, af því að þetta er skrifað á forn-íslensku þannig að þetta er svona svakalega dramatískt orðalag sem að maður skilur en hálf-skilur ekki þannig að mér fannst þetta tengjast ótrúlega vel við þessi þrjú hljóðfæri,“ segir Gulli.

„Ég held að ég vilji bara að tónlistin sé sérstaklega eitthvað sem maður upplifir, kannski meira en að maður sé að hugsa rosalega mikið og hlusta.  Þegar þetta er sett saman rétt við konseptið sem verkið fjallar um þá getur það verið mjög kúl að stíga í einhvern svona heim sem er hljóð og mynd, einhvers konar upplifun í náttúru sem ég held að allir geti tengt við,“ segir hann og bætir við:

„Ég reyni yfirleitt að finna eitthvað konsept sem ég skil ekki alveg við náttúruna. Ég veit ekki alveg af hverju mér finnst þetta vera merkilegt eða kúl, eitthvað sem ég hugsa um aftur og aftur og aftur, og er ekki alveg útskýrt. Kannski tengist þetta eitthvað því að ég fór ungur til Bandaríkjanna og svo kem ég alltaf heim til Íslands á sumrin, það er allt svo fallegt hérna og maður finnur mikinn innblástur úr náttúru Íslands.“

„Það er gaman að hugsa um þetta af því að mér finnst alltaf að þegar ég er á Íslandi og búinn að vera hérna í einhvern tíma þá get ég ekki beðið eftir að fara til Bandaríkjanna, sko, fastur á þessari eyju. Svo þegar ég er í Bandaríkjunum þá sakna ég Íslands. Foreldrar mínir eiga sumarbústað uppi í Skorradal og það er bara paradís fyrir mér og ég fæ svona nostalgíu-móment þar sem ég bara hugsa „vá hvað ég vildi að ég væri þar.“ Þetta er svona stöðug barátta, grasið er alltaf grænna hinum megin. Þannig að það er ágætt að flakka á milli svona reglulega sko, ég er orðinn vanur því núna.“

Tilfinning sem tengir saman hræðslu og öryggi

Kammerverkið Bylur, sem Gulli samdi fyrir Tvinna, viðburð Ung Nordisk Musik á Íslandi síðasta sumar, verður flutt á aðalhátíð UNM í Tempere í Finnlandi í ár. Verkið er samið fyrir rafmagnsgítar, hljómborð, tvo víbrafóna, fagott, tvær flautur, fiðlu og bassa. 

„Eins og titillinn gefur til kynna, það er um byl og storm. Ég hef stundum fundið fyrir þessu á Íslandi, það er brjálað rok úti en maður er fastur inni og er öruggur. Og þá er einhver tilfinning sem ég finn fyrir þar sem maður er hræddur við það sem er úti en maður er samt svo öruggur og svona svakalega góð tilfinning sem tengir tvær andstæður, hræðslu og öryggi. Og ég reyndi sem sagt að góma þetta í einhverjum hljómum,“ segir Gulli.

„Þetta finnst mér svolítið skemmtilegt, ég hafði fyrir þetta ekkert verið í tónsmíðanámi og ég hafði ekki beint haft tækifæri til að semja fyrir eitthvað sem var ekki bara gítartónlist eða þá gítar og eitthvað annað. Og svo fékk ég hérna tækifæri í gegn um UNM að semja verk og gat valið hvaða hljóðfærasamsetningu sem er. Þannig að ég hugsaði skapandi og var að hlusta svolítið mikið á John Luther Adams á þessum tíma og kannski stal einverri hljóðfærasamsetningu af honum úr einhverjum verkum sem mér fannst kúl og bætti svo inn mínu. En annars var ég bara að hugsa hvernig mismunandi hljóðáferðir gætu blandast saman og reyndi að fá eitthvað svona aðeins öðruvísi en bara strengjakvartett eða blásturshljóðfærasamsetningu.“

Hann segist tengja við það að spila sjálfur. „Mér finnst ég þá einhvern veginn geta fundið fyrir því í líkamanum, embody hvað tónlistin er að gera, hvernig er að spila það. En það er bara svona eitthvað sem ég geri í lokin þegar ég er ekki að semja. Ég yfirleitt byrja með einhver konsept og stundum bý ég til lítið tölvuforrit sem tekur einhverja minimalíska hljóma og pattern sem býr til fullt af stöffi sem ég síðan nota til þess að vinna úr. En ég held að ef maður semur bara á hljóðfærið sitt þá fellur maður í einhverja gildru þar sem maður gerir eitthvað sem hljóðfærið vill gera og það getur verið last á verkinu. En sama, held ég, ef þú ert bara að vinna í nótunum ef þú vilt gera eitthvað sem er svona symmetrískt og kúl, að maður missi kannski tengingu við það hvernig þetta er, að hlusta á það og hvernig er að spila það. þannig að ég reyni svona að finna jafnvægi á milli þessara tveggja hluta.“

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Patrik Ontkovic

Eilífðarstúdent í Bandaríkjunum

Gulli Björnsson er 28 ára gítarleikari og tónskáld úr Kópavoginum. Hann vinnur með hljóðfæraleik, rafhljóð og myndrænt efni í tónlist sinni og tvinnar það við náttúrufyrirbæri og náttúru-upplifun.

„Ég er svona eilífðarstúdent, í Bandaríkjunum. Ég fór þegar ég var 18 ára, þá fór ég að læra á klassískan gítar við Manhattan School of Music í New York og fór síðan í meira gítarnám við Yale School of Music í Conneticut og er núna búinn að vera eitt ár í doktorsnámi við Princeton University í New Jersey.“

Ung Nordisk Musik mikilvægur vettvangur fyrir tónskáld

Ung Nordisk Musik er samnorræn tónlistarhátíð sem hefur skipað sér sess sem mikilvægur vettvangur fyrir ung tónskáld og tónlistarflytjendur á Norðurlöndum. Hátíðin hefur verið haldin frá árinu 1946 og ferðast á milli landanna sem að hátíðinni standa Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Íslands og Danmerkur.

Sjö tónskáld fara fyrir Íslands hönd á aðalhátíð Ung Nordisk Musik í Tampere í Finnlandi í lok sumars. Auk Gulla fara þau Áslaug Rún Magnúsdóttir, Hildur Elísa Jónsdóttir, Katrín Helga Ólafsdóttir, Krõõt-Kärt Kaev, Pétur Eggertsson og Örnólfur Eldon á hátíðina.

Verk þeirra voru unnin í vinnusmiðjum UNM í byrjun árs og frumflutt á tónleikunum ÖGNUN í byrjun júlí. Verkin eru fjölbreytt og spanna allt frá kammer- og hljóðfæraverkum til rafverka, gjörninga og tölvuleikja. Íslandsdeild Ung Nordisk Musik mætir í Tengivagninn á Rás 1 á næstu vikum og kynnir umrædd tónverk fyrir hlustendum.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Maðurinn reynir að búa til mynstur úr óreiðu

Menningarefni

Angurvær hljómasúpa með öndun