Svona er hægt að skemmta sér um helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Wallpaper Flare

Svona er hægt að skemmta sér um helgina

01.08.2020 - 10:10

Höfundar

Verslunarmannahelgin er með óhefðbundu sniði í ár, á því leikur enginn vafi. Margir þurfa að hverfa frá plönum sínum um mannamót og veisluhöld og skipta þeim út fyrir eitthvað rólegra og fámennara. Þó við getum ekki hópast saman og haldið upp á þessa stærstu ferðahelgi ársins að gömlum sið er ekkert sem segir að það sé ekki hægt að njóta hennar með fjölskyldu og nánustu vinum.

Það er ýmislegt ánægjulegt hægt að gera sér til dundurs sem Almannavarnaþríeykið myndi ekkert setja sig upp á móti. Hér eru nokkrar hugmyndir fyrir þá sem vilja njóta helgarinnar í samkomubanni en jafnframt tryggja eigið öryggi og samlanda sinna.

Mynd með færslu
 Mynd: Flickr
Það er huggulegt að sofa í tjaldi og það þarf ekki að fara langt til að gera það

Tjaldað í garðinum

Það þarf ekki að leita langt yfir skammt til að koma upp tjaldi. Hægt er að taka tjaldið út í garð, setja það upp í sameiningu, segja draugasögur og anda að sér fersku lofti. Þá er rakið að grilla sykurpúða og halda kvöldvöku með fjölskyldunni og sínum nánustu.

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Krækiberin fara alveg að verða tilbúin til átu

Berjamór

Nú er ágúst að hefjast og berin eru víða um land orðin bústin. Því er tilvalið að taka sína allra nánustu fjölskyldu með sér út að njóta náttúrunnar með berjatínu og safna blá- og krækiberjum í fötu. Þau eru lostæti ein og sér en líka frábær til brúks í sultugerð og út á ís sem dæmi.

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay
Múffur eru bragðgóðar og einfaldar

Bakstur

Til að gera inniveruna enn skemmtilegri og lífga upp á tilveruna er tilvalið að baka köku eða gott brauð með fjölskyldunni og fara í lautarferð í garðinum eða hreinlega inni í stofu með nýbakað brauð og ilmandi smákökur.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fjallaloftið er allra meina bót

Fjallganga

Það þarf að vera vel skæddur og nestaður þegar farið er í fjallgöngu en fyrir þá sem treysta sér til að virða tveggja metra regluna eru fjallgöngur tilvalið uppátæki um helgina. Góð hreyfing, fjallaloft og fuglasöngur eru frábært meðal við stressi og kvíða sem getur fylgt óvissuástandinu. Því er gráupplagt að smyrja sér samlokur og finna sér hæfilega stórt fjall eftir þoli og líkamsformi og skella sér í göngu.

Mynd með færslu
 Mynd: Karl Sigtryggsson - RÚV/Landinn
Það leiðist engum í ólsen ólsen fr_20151004_023996.jpg

Spil

Gömlu góðu spilin standa alltaf fyrir sínu þó mörg hver séu þau farin að safna ryki á tímum snjallsíma. Nú er lag að fá fjölskylduna saman við stofuborðið og draga fram spilastokk, spila veiðimann eða ólsen ólsen og eiga saman ljúfa stund.

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay.com
Gítarjarmið svíkur engan

Gítargutl

Margir munu eflaust sakna þess um helgina að bresta ekki í fjöldasöng á Þjóðhátíð eða í útilegunni. Það ætti hins vegar ekkert að stoppa gítarleikara með lágmarks unnáttu á hljóðfærið sitt í að taka nokkur lög og syngja með fjölskyldunni. Hér má til dæmis finna gítargripin fyrir Þjóðhátíðarlagið Lífið er yndislegt.

Gamlir hundar

Í Tennessee í Bandaríkjunum er dvalarheimili fyrir aldraða hunda. Hér má fylgjast með beinni útsendingu frá dvalarheimilinu þar sem sjá má hvernig hinir öldruðu hundar bregða á leik, borða, gelta og sofa. Menningarritstjórn RÚV.is mælir eindregið með hundunum öldnu og uppátækjum þeirra.

 

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Sjö sótfyndnir grínþættir sem nóg er til af

Sjónvarp

Fjórar stórgóðar fordæmalausar seríur í sóttkvína

Menningarefni

Átta heilandi hugleiðslur í ástandinu