Sögulegur samdráttur á Evrusvæðinu

01.08.2020 - 09:04
epa08570349 A woman walks past closed businesses in Talavera de la Reina, Spain, 28 July 2020. According to the Spanish Labour Force Survey published on 28 July, a total of 1,074,000 people stopped working during the second quarter of the year amid the Covid-19 coronavirus lockdown.  EPA-EFE/Manu Reino
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Verg landsframleiðsla í Evruríkjunum dróst saman um 12,1 prósent að meðaltali á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt nýjum tölum evrópsku hagstofunnar. Samdrátturinn hefur aldrei verið meiri síðan mælingar evrópsku hagstofunnar hófust árið 1995. BBC greinir frá.

Efnahagur Spánar varð verst úti og dróst saman um 18,5 prósent á tímabilinu frá apríl til júní, eftir að hafa dregist saman um 5,2 prósent á fyrstu þremur mánuðum ársins. Umfang þjónustu- og samgöngugeirans dróst saman um meira en helming á fyrri helmingi ársins. 

Samdráttur í Frakklandi var 13,8 prósent á öðrum ársfjórðungi, þar sem efnahagurinn hríðversnaði strax í apríl þegar samkomutakmarkanir voru settar á til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins. 

Þá dróst efnahagur Ítala saman um 12,4 prósent á tímabilinu, en samdrátturinn þar var minni en spáð hafði verið fyrir um. Samdráttur hefur aldrei verið jafnmikill í Þýskalandi eins og nú á öðrum ársfjórðungi þegar verg landsframleiðsla dróst saman um 10,1 prósent. 

Atvinnuleysi er þó langt frá því að hafa náð þeim hæðum sem það náði í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 og mældist 7,8 prósent á Evrusvæðinu í júní. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi