Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óskar þess að lýðheilsu sé enn betur sinnt

Mynd: RÚV / RÚV
Guðni Th. Jóhannesson var settur í embætti forseta Íslands nú fyrir skömmu. Athöfnin var mjög látlaus en um þrjátíu voru viðstaddir vegna samkomutakmarkana. Það kom því ekki á óvart að kórónuveirufaraldurinn skuli hafa verið Guðna ofarlega í huga í ræðu sinni.

Forsetinn á að standa utan við stjórnmál

Hann kom einnig inn á stöðu forsetans í stjórnskipun landsins og sagði hann eiga að vera utan vettvangs stjórnmála frá degi til dags.

„Forseta er aðeins ætlað hlutverk á því sviði við sérstakar aðstæður, einkum við stjórnarmyndanir og stjórnarslit, að ógleymdum þeim rétti að synja lögum staðfestingar vegna eigin samvisku eða með hliðsjón af skýrum vilja stórs hluta kjósenda. En það er hér, á hinu háa Alþingi, sem við finnum þungamiðju hins pólitíska valds í landinu.“

„Nú er sumar. En vetur nálgast.“

Guðni talaði um að láta ekki deigan síga í vörnum við veirunni sem nú  herjar. „Látum þessa erfiðu reynslu á raunastund því færa okkur von en ekki víl. Látum vandann fram undan ekki letja okkur heldur efla til dáða,“ sagði Guðni.

„Nú þegar mér er falið embætti forseta Íslands í annað sinn nefni ég þá ósk mína að við stefnum áfram og enn frekar að því að efla heilbrigði og vellíðan allra í þessu landi. Ég á mér þá ósk að við sinnum enn betur lýðheilsu og forvörnum í heilbrigðismálum, að við áttum okkur enn betur á því að í ys og þys nútímans er brýnt að huga að andlegri líðan, sporna við streitu og stressi, kulnun og kvíða.“

Meðal viðstaddra voru forsætisráðherra, formenn stjórnmálaflokkanna, Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrum forsetar. Ester Talia Casey flutti lagið Þessi fallegi dagur eftir Bubba Morthens að beiðni Guðna við und­ir­leik Ingva Jó­hann­es­son­ar og Andra Ólafs­son­ar.

Að því loknu vann Guðni drengskaparheit að stjórnarskránni eftir að forseti Hæstaréttar hafði lýst forsetakjöri. Biskup Íslands, Anna M. Sigurðardóttir, blessaði forsetann og Diddú flutti þjóðsönginn í lok athafnar ásamt Kára Þormari organista Dómkirkjunnar. 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV