Okkur fannst þetta vera næsta skref fyrir okkur

Mynd: RÚV núll / Ra:tio

Okkur fannst þetta vera næsta skref fyrir okkur

01.08.2020 - 09:02
Tvíeykið Ra:tio gaf út plötuna DANS í gær. DANS er fyrsta poppplata sinnar tegundar, sem gefin er út hér á landi, með pródúsera og lagahöfunda í forgrunni.

Bjarki Sigurðsson og Teitur Helgi Skúlason standa á bak við Ra:tio. Þeir hafa þekkst frá því þeir voru saman í fótbolta í KR á yngri árum. Árið 2013 skiljast svo leiðir þegar Bjarki flytur til Bandaríkjanna í tvö ár og Teitur fór í MR. Bjarki byrjar svo í MR þegar hann flytur heim og þeir hittast þá aftur í partýi og spjalla saman um tónlist og komust þá að því að þeir væru að hlusta á nákvæmlega sömu plöturnar og þeir höfðu báðir mikinn áhuga á því að spreyta sig sjálfir í tónlist.

Bjarki og Teitur hafa unnið mikið með raftvíeykinu ClubDub, GDRN, Unu Schram og fleirum. Þeir gerðu meðal annars plötuna Juice Menu Vol. 1 og Tónlist, með ClubDub sem hafa notið mikilla vinsælda. Nú hins vegar gefa þeir út sína eigin plötu og fá til sín góða gesti.

„Okkur fannst þetta vera næsta rétta skref fyrir okkur, við erum náttúrlega búnir að vera vinna sem pródúserar fyrir Guðrúnu Ýri, ClubDub og Unu Schram og höfum verið að taka „session“ með hinum og þessum. Þannig að okkur fannst vera kominn tími á að „staplisera“ okkur meira sem tvíeyki.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV núll - Ra:tio

Strákarnir segja að þetta sé í rauninni fyrsta plata þessarar tegundar á Íslandi, þar sem pródúserar gefa út undir sínu nafni þar sem þeir fá til sín söngvara og textahöfunda til að vinna með þeim. „Svipað og Calvin Harris og DJ Khaled og fleiri eru að gera.“

Margir góðir gestasöngvarar koma fyrir á plötunni DANS. Þeir ákváðu nafnið á plötunni þegar þeir voru nýbyrjaðir á henni til að hafa það að leiðarljósi. „Markmiðið okkar var að gera plötu með danslögum af allri sort. Þetta eru ekki bara einhver klúbbalög þetta eru líka kannski svona meiri útilegu- eða garðpartý lög.“

Í loka laginu á plötunni syngja þeir sjálfir og er þetta í fyrsta skiptið sem þeir gera það. Þeir segja að þeir vilji gera meira af því.  

„Þegar við byrjuðum að gera tónlist þá var það alltaf pælingin. Byrjuðum að syngja okkar eigin tónlist alveg frá byrjun svona áður en við fórum að vinna með öðrum „artistum“, þannig það hefur alltaf verið draumurinn okkar að byrja syngja og geta gert þetta alveg frá byrjun til enda sjálfir. En við byrjum á þessu lagi,“ segir Teitur Helgi.

Sjáðu viðtalið í heild sinni við Ra:tio í spilaranum hér fyrir ofan. Jafet Máni ræddi við þá Bjarka Sigurðsson og Teit Helga Skúlason um þeirra nýjustu plötu.