Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ná hugsanlega utan um hópsýkingarnar fyrr

Mynd: Guðmundur Pálsson / RÚV
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, segir að hugsanlega séu þau að ná utan um hópsýkingarnar sem blossað hafa upp að undanförnu hraðar en þau þorðu að vona. Þau séu þó enn í myrkrinu um hvernig veiran komst til landsins. 

Víðir var gestur Vikulokanna á Rás 1 í morgun. Þar bar hann saman stöðuna eins og hún var í upphafi faraldursins í vetur og stöðuna sem komin er upp núna. Í vetur hafi þau náð að rekja uppruna fyrstu smitanna en núna hafi þau ekki vitað hvort þetta væru fyrsta stigs, annar stigs eða þriðja stigs smit og þess vegna hafi þau talið að þau hefðu ekki stjórn á atburðarásinni.

Hefur fulla samúð með listamönnum

Víðir sýndi því mikinn skilning að listamenn brygðust harkalega við fregnum um hertar samkomutakmarkanir.

„Við þurfum auðvitað að vanda okkur í samskiptum við hvort annað en líka vera skilningsrík á það að fólk sem sér allt sitt hverfa verði mjög reitt og noti stór orð,“ sagði Víðir.

Hann segir viðbrögðin mjög eðlileg. Listamenn hafi séð fram á, eftir erfiða mánuði, að ná nokkrum giggum um helgina til þess að eiga fyrir reikningum, „en svo bara hverfur það.“

Mynd: Guðmundur Pálsson / RÚV

Almannavarnir verða með upplýsingafund klukkan tvö. Þar fer þríeykið yfir stöðu mála og svarar spurningum. Fundurinn verður í beinni útsendingu á Rúv.is, í sjónvarpi og á Rás 2.