Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Landgangurinn við Herjólf hrundi

01.08.2020 - 18:44
Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV
Landgangurinn við Herjólf í Vestmannaeyjum hrundi í dag þegar hann losnaði af festingum við afgreiðsluhúsið við höfnina. Landgangurinn er nýr og var settur upp í síðustu viku. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs, segir í samtali við fréttastofu að engan hafi sakað og engar skemmdir orðið á eignum. Eyjafréttir greindu frá í dag.

Guðbjartur segir að sjávarstaðan í dag hafi verið óvenjuhá og þegar landganginum hafi verið lyft upp í hæstu stöðu hafi hann runnið úr festingum við afgreiðsluhúsið við höfnina og sá endi fallið til jarðar.

„Það er greinilegt að eitthvað vantar upp á í hönnuninni,“ segir hann. Nú hafi landgangurinn verið festur við húsið að nýju og verið sé að fara yfir hönnunina og uppsetninguna.

Landgangurinn verður ekki notaður þar til gert hefur verið við hann. Guðbjartur gerir ráð fyrir að hann verði aftur tekinn í notkun í næstu viku en þangað til gangi fólk til og frá borði um bíladekkið. Hann segir mikla mildi að hvorki fólk né bílar hafi verið undir landganginum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Ragnarsdóttir - RÚV