Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

„Í rauninni bara lokafrágangur eftir“

01.08.2020 - 19:39
Mynd: RÚV / RÚV
Icelandair stefnir á ljúka samningum við kröfuhafa í vikunni og hlutafjárútboði í þessum mánuði. Forstjóri félagsins býst ekki við að fyrirkomulag við endurráðningar flugfreyja breytist.

Icelandair hefur samið við rúmlega helminginn af þeim fimmtán kröfuhöfum sem félagið á í viðræðum við. Stefnt er á að klára að semja við hina í næstu viku. „Viðræðurnar eru mjög langt komnar og það er í rauninni bara lokafrágangur eftir,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Stjórnendur Icelandair stefndu á að klára samninga við lánadrottna fyrir lok júlí en boðuðu hlutafjárútboði hefur tvisvar verið frestað. Enn er stefnt að því að safna allt að 29 milljörðum og ljúka útboðinu í þessum mánuði. Bogi segist ekki hafa vanmetið þann tíma sem samningaviðræðurnar myndu taka.

„Þetta er stórt, viðamikið og flókið verkefni. Það er einfaldlega þannig og margir hagsmunaaðilar sem við erum í viðræðum við, lánadrottnar og fleiri,“ segir hann. Ekki hafi gengið verr en búist var við að semja við kröfuhafa.

Unnið hefur verið að útfærslu á láni með ríkisábyrgð með íslenskum stjórnvöldum, Íslandsbanka og Landsbankanum og segir Bogi þær viðræður langt komnar. 

„Uppleggið er að stjórnvöld ábyrgist lánalínu en hversu há hún verður liggur ekki fyrir á þessari stundu. Viðræður eru enn í gangi hvað það varðar,“ segir Bogi. „Við erum með einhvern ramma sem við erum að vinna með en ég get ekki gefið það upp á þessu stigi.“

Samtök evrópskra starfsmanna í samgönguiðnaði fordæmdu í gær framgöngu Icelandair og flugmanna félagsins í garð flugfreyja, það er að flugmenn hafi ætlað að ganga í störf flugfreyja þegar þeim var sagt upp. Bogi segir ályktun samtakanna ekki hafa áhrif á ímynd félagsins til lengri tíma eða á áhuga þeirra sem taka þátt í hlutafjárútboðinu. Þá hafnar hann því alfarið að Icelandair hafi ákveðið að hegna þeim flugfreyjum sem beittu sér í kjaradeilunni með því að endurráða þær ekki.

Mikil ólga hefur verið meðal flugfreyja vegna ákvörðunar flugfélagsins um að líta ekki einungis til starfsaldurs við endurráðningar heldur einnig frammistöðu. Stjórnendur Icelandair og flugfreyjur funda í vikunni.

„Í öllum þessum endurráðningum sem við erum að vinna í núna, þar sem við höfum svigrúm, erum við að horfa til starfsreynslu og frammistöðu. Við vinnum það eins vel og við mögulega getum,“ segir Bogi. Aðspurður hvaða niðurstöðu hann vill fá á fundi með flugfreyjum í vikunni segir hann: „Ég sé ekki að það sé neitt að breytast í þessu ferli. Við erum að vinna þetta mjög faglega og ráða gott fólk inn til félagsins.“