Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Haldið verður áfram að taka sýni um helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Töluverð aðsókn var á heilsugæslur í gær og voru Covid-sýni tekin fram eftir degi. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdstjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að haldið verði áfram að taka sýni um helgina og fólk verði einnig kallað inn í seinni skimun.  

Allir sem fundu einhver einkenni voru, í gær, hvattir til að gefa sig fram við heilsugæslurnar og var mikið að gera hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Ragnheiður Ósk segir að tekin hafi verið sýni allan daginn á langflestum heilsugæslum.

„Það var töluverð aðsókn og enn er það þannig að við metum hvert og eitt tilvik, hvernig einkennin eru og tökum svo sýni ef okkur sýnist hætta á að þetta sé Covid.“

Fólk sem finnur einkenni núna um helgina er hvatt til að hringja í síma 1700.

„Í dag er verið að taka sýni á Læknavaktinni. Á morgun er verið að taka sýni á heilsugæslustöðinni í Hvammi og svo á mánudaginn aftur á Læknavaktinni en þetta fer allt í gegnum 1700 símann.“

Hingað til hefur fólk ekki verið kallað inn í sýnatöku 2 um helgar en nú verður breyting á því.

„Það er búið að ákveða það að allir ferðamenn sem eru 10 daga eða lengur hér á Íslandi eiga að koma í seinni skimun plús allir íslendingar sem eru að koma heim.“

Seinni skimanir fara fram á Suðurlandsbraut 34 og getur fólk átt von á því að vera kallaðir í hana um helgina. 

„Við erum að búa okkur undir það að það komi fleiri þangað þannig að við ætlum að hafa opið á morgun sunnudag og mánudag frá 12 til þrjú.“