Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hádegisfréttir: Sjö ný smit, 58 í einangrun

01.08.2020 - 12:12
Sjö ný smit greindust í gær, fimmtíu og átta eru í einangrun og á fimmta hundrað í sóttkví. Töluverð aðsókn var á heilsugæslur í gær og voru Covid sýni tekin fram eftir degi. Haldið verður áfram að taka sýni um helgina og fólk verður kallað inn í seinni skimun. Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að hugsanlega náist hraðar utan um hópsýkinguna en yfirvöld höfðu gert ráð fyrir.

Kórónuveirusmit á heimsvísu nálgast nú átján milljónir. Yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar segir áhrifa farsóttarinnar eiga eftir að gæta í áratugi. Efnahagssamdráttur á evrusvæðinu hefur aldrei mælst meiri frá stofnun þess. 

Mikill viðbúnaður var í gær þegar lögreglumenn í hlífðarfatnaði þurftu að handtaka manneskju sem var í einangrun á heimili sínu en neitaði að hlíta sóttvarnarreglum.

Tjaldsvæði voru víða fullbókuð í gær og vísa þurfti fólki frá vegna fjöldatakmarkana. Varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi segir að umferð hafi gengið að óskum og fólk fari eftir sóttvarnareglum.

Guðni Th. Jóhannesson verður settur í embætti forseta Íslands í annað sinn í dag. Athöfnin verður með mjög frábrugðnum hætti af sóttvarnarástæðum, helgistund í Dómkirkjunni er aflýst, útsendingunni verður ekki varpað á skjá á Austurvelli og forsetahjónin ganga ekki út á svalir þinghússins.

Veðurhorfur: Suðaustan fimm til þrettán metrar, en norðlægari vindur á vestanverðu landinu. Víða rigning eða skúrir og hiti átta til fjórtán stig, en þurrt að kalla á Norðuausturlandi með hita að átján stigum. Breytileg átt þrír til tíu á morgun, skýjað að mestu og dálítil væta í flestum landshlutum. Hiti átta til sextán stig, svalast á Vestfjörðum.