Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fullt í skimun á Akranesi eftir góðar viðtökur

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráð Íslands
Fullt er í skimun Íslenskrar erfðagreiningar á Akranesi á morgun. Bæjarstjóri Akranesbæjar, Sævar Freyr Þráinsson, greinir frá þessu í Facebook færslu í kvöld. Hann þakkar Skagamönnum góð viðbrögð við boðun í skimun.

Íslensk erfðagreining stendur fyrir skimun fyrir COVID-19 veirunni hjá slembiúrtaki íbúa Akraness á morgun til þess að kanna hve útbreidd hópsýking sem kom upp í vikunni sé.  Sjö íbúar á Akranesi greindust með COVID-19.  Allir höfðu þeir verið við vinnu á lóðinni við Heilbrigðisstofnun Vesturlands og voru settar á aðgangstakmarkanir þar í kjölfarið.

Í svari Íslenskrar erfðagreiningar við fyrirspurn Sævars Freys kemur fram að  448 pláss hafi verið í boði en þau ætli að bæta við plássum þar sem skimunargetan á morgun sé 500. 

Þar segir einnig að ekki ættu margir að hafa lent í því að komast ekki að eftir að hafa fengið boð í skimun þar sem reynt sé að passa fjölda boðana.