Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Efnisveitan Ísflix opnuð eftir mánuð

Mynd: Glenn Carstens-Peters / Unsplash

Efnisveitan Ísflix opnuð eftir mánuð

01.08.2020 - 12:03

Höfundar

Efnisveitan Ísflix verður opnuð eftir mánuð. Ísflix er fyrsta efnisveitan á Íslandi sem er einungis ólínuleg. Hún er aðgengileg landsmönnum að kostnaðarlausu og boðið verður upp á fjölbreytt efni, segir Jón Kristinn Snæhólm, einn stofnenda. „En aðalmálið er að þetta er opið fyrir alla strauma og stefnur, bæði í pólitík og í menningu og því meira því betra.“

Veitan verður tilbúin 28. ágúst, segir Jón Kristinn segir í samtali við Morgunútvarp Rásar 2. „Maður verður að setja sér dagsetningu til þess að setja pressu á sjálfan sig og samstarfsmenn.“

Upphaflega stóð til að veitan yrði tilbúin í byrjun nóvember í fyrra, en tafir urðu á, meðal annars vegna COVID-19, útskýrir Jón. Þá hafi tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir að þróa appið sjálft.

Ásamt Jóni eru Ingvi Hrafn Jónsson og Jónatan Einarsson frumkvöðlarnir að Ísflix, segir hann. Aðgangur að efni veitunnar er notendum að kostnaðarlausu. Markmið eigenda Ísflix er að vera opinn vettvangur frjórrar lýðræðislegrar umræðu um íslensk þjóðfélags og menningarmál, segir í tilkynningu frá aðstandendum.

Opinn vettvangur frjórrar lýðræðislegrar umræðu

Jón Kristinn segir að búast megi við fjölbreyttu úrvali af efni á streymisveitunni. Stefnt sé á að veita íslensku sjónvarpi; kvikmyndum, heimildamyndum, sjónvarpsþáttum, og öllu því sem sjónrænt er; tónlist, myndlist, ræðum, viðburðum og gjörningum, sem ekki nái inn á stærri sjónvarpsstöðvarnar, vettvang.

Hver sem er getur fengið efni sitt birt á efnisveitunni, segir Jón Kristinn. „Á meðan þú ert ekki að brjóta lög og almennt velsæmi þá ertu velkominn. Aðalmálið er að þetta er opið fyrir alla strauma og stefnur, bæði í pólitík og í menningu og því meira því betra,“ segir hann.

Endurspeglar nútímann í efnisdreifingu

Ísflix endurspeglar nútímann í efnisdreifingu. Áður hefur verið greint frá því að hugmyndin að veitunni hafi komið til vegna þess að fjöldi áhorfenda Hrafnaþings, sem nú er sýndur á vef Morgunblaðsins, séu í eldri kantinum og kjósi heldur að horfa á þætti í sjónvarpinu, að sögn Ingva Hrafns.

Með tilkomu appsins og nýju streymisveitunnar verði það hægt, líkt og þekkt er með streymisveituna Netflix. Þá verði einnig hægt að horfa í snjalltækjum og öppum fyrir þá sem það kjósa. Með Ísflix verði því „allt fyrir alla.“

 

Tengdar fréttir

Innlent

Íslenska streymisveitan Ísflix enn í þróun

Sjónvarp

„Þetta er bara hluti af framtíðinni“