Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Efnaminni Danir fái andlitsgrímur án endurgjalds

Mynd með færslu
 Mynd: Anastasiia Chepins - Unsplash
Rauðgræna bandalag vinstri flokkanna í Danmörku hefur gert það að tillögu sinni að láglaunafólk í landinu fái andlitsgrímur án endurgjalds.

Meðal þeirra hópa sem nefndir hafa verið eru ellilífeyrisþegar og námsmenn. Að mati talsfólks bandalagsins gerir sú skylda að hylja vit sín grímu í almenningsfarartækjum hverja ferð of dýra fyrir þau sem lítið fé hafa milli handa.

Hugmyndin er að veita fólkinu styrk svo það geti nálgast andlitsgrímur í lyfjaverslunum. Tilgangur með notkun andlitsgríma sé að verja þau sem veikust eru fyrir en það eigi ekki verða til þess að aðrir hópar verði útilokaðir frá almenningssamgöngum vegna fátæktar.

Sósíalistaflokkurinn (SF) hefur einnig róið að því öllum árum að fá heilbrigðisráðherrannn Magnus Heunicke til að finna lausn sem getur hjálpað fátækari Dönum að útvega sér þennan mikilvæga búnað á tímum kórónuveirunnar.

Sósíaldemókratar sem leiða ríkisstjórn Danmerkur telja kostnað við andlitsgrímukaup ekki nægilega íþyngjandi til að það réttlæti styrkveitingar til ákveðinna hópa en kveðast fylgjast vel með verðlagningu þeirra. Hækki verð úr hófi fram muni verða brugðist við því.