Brýnir fyrir heilbrigðisstarfsfólki að taka sýni

01.08.2020 - 14:38
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
„Þegar kemur að snemmgreiningu þá er ekki ásættanlegt að heyra sögur af því að fólk sem er með einkenni komist ekki í sýnatöku. Ég vil brýna fyrir heilbrigðisstarfsfólki að hafa lágan þröskuld á því að taka sýni,“ sagði Alma Möller, landlæknir, á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Fréttastofan tók í gær viðtal við unga konu sem komst að því í gær að veikindin sem hún glímdi við í vor hefðu verið af völdum kórónuveirunnar. Hún hafði ítrekað óskað eftir sýnatöku í vor.  

Þá var í dag rætt við par sem greindist smitað nú í júlí eftir að hafa tvívegis verið neitað um sýnatöku. 

Á upplýsingafundi almannavarna talaði Alma Möller um að nú væri veiran komin aftur á kreik og allir þyrftu að taka sig á. Veiran væri skæð og fjöldi þeirra sem veiktust í vor glímdi við langvarandi einkenni, meðal annars mikið þrekleysi.

„Þess vegna viljum við ná aftur tökum á henni og til þess þurfum við öll að hjálpast að. Lykilatriði í okkar viðbrögðum er að vernda þá sem eru viðkvæmir, snemmgreining og skimun, einangrun og smitrakning, beiting sóttkvíar og samfélagslegar aðgerðir,“ sagði Alma.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi