Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Biðjast velvirðingar á upplýsingaóreiðu

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Strætó bs. biðst afsökunar á upplýsingaóreiðu í gær varðandi nýjar reglur um grímunotkun í stætó. Nú liggur fyrir að grímunotkun er skylda í landsbyggðavögnum strætó. Það er ekki grímuskylda í Strætó á höfuðborgarsvæðinu.

Mæla með grímunotkun sé vagninn þétt setinn

Mælt er með því að viðskiptavinir setji upp grímu ef vagninn er þétt setinn og erfitt verður að halda tveggja metra fjarlægð.  Það er einnig mælt með grímunotkun fyrir fólk sem er í áhættuhópum.

Samkvæmt reglunum sem sóttvarnarlæknir kynnti í fyrradag er fólki skylt að nota grímur þegar ekki er unnt að halda tveggja metra fjarlægð, í öllu áætlunarflugi, í farþegaferjum og öðrum almenningssamgöngum.

Í kjölfarið sagði Stætó frá því í tilkynningu að grímuskylda væri um borð í öllum vögnum Stræó bs. „Þó við höfum notað orðið grímuskylda þá var nú ekki meiningin að gera þetta að skyldu,“ sagði Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, um tilkynninguna í gær.

Víðir Reynisson sagði á upplýsingafundi Almannavarna í dag að regluna ætti að virða í landsbyggðavögnum Strætó þar sem þær ferðir séu lengri.

Í nýrri tilkynningu frá Strætó bs. segir jafnframt að börn fædd árið 2005 og yngri séu með undanþágu frá grímunotkun og að viðskiptavinir Strætó séu ábyrgir fyrir því að útvega sér eigin andlitsgrímu.

Viðskiptavinir eru minntir á að passa upp á hreinlæti og nota ekki almenningssamgöngur ef grunur leikur á smiti.