Aubameyang tryggði Arsenal bikarinn

epa08579502 Arsenal's Pierre-Emerick Aubameyang (C) lifts the FA Cup trophy following the English FA Cup final between Arsenal London and Chelsea FC at Wembley stadium in London, Britain, 01 August 2020.  EPA-EFE/Adam Davy/NMC/Pool EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications.
 Mynd: EPA-EFE - PA POOL

Aubameyang tryggði Arsenal bikarinn

01.08.2020 - 18:35
Gabonmaðurinn Pierre-Emerick Aubameyang var hetja Arsenal er liðið vann 2-1 sigur á Chelsea í úrslitum ensku bikarkeppninnar á Wembley í Lundúnum í dag. Með sigrinum tryggir Arsenal sæti sitt í Evrópukeppni að ári.

Frank Lampard, stjóri Chelsea, og Mikel Arteta, stjóri Arsenal, sóttust báðir eftir sínum fyrsta titli í starfi knattspyrnustjóra í dag en sæti í Evrópudeildinni var einnig í húfi fyrir Arsenal sem náði ekki Evrópusæti í gegnum ensku úrvalsdeildina í vetur.

Chelsea hóf leikinn betur þar sem Bandaríkjamaðurinn Christian Pulisic kom þeim í forystu eftir aðeins fimm mínútna leik. Leikurinn var nokkuð jafn eftir það en Arsenal náði betri tökum þegar leið á hálfleikinn. Fílabeinsstrendingurinn Nicolas Pépé virtist hafa jafnað leikinn með glæsilegu skoti á 26. mínútu en liðsfélagi hans var rangstæður í aðdraganda marksins. Leikmenn Arsenal létu það ekki á sig fá og fengu vítaspyrnu strax í næstu sókn þegar César Azpilicueta tók Pierre-Emerick Aubameyang niður í teignum. Aubameyang steig sjálfur á punktinn og skoraði örugglega.

1-1 stóð í hléi og framan af síðari hálfleik, allt þar til Aubameyang var aftur á ferðinni á 68. mínútu er hann vippaði boltanum laglega yfir Willy Caballero í marki Chelsea og kom Arsenal þannig í 2-1 forystu.

Chelsea missti bæði fyrirliðann Azpilicueta og markaskorarann Pulisic af velli vegna meiðsla og róðurinn þyngdist enn frekar fimm mínútum eftir síðara mark Aubameyang. Þá fékk Króatinn Mateo Kovacic að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir brot á Granit Xhaka úr Arsenal. Chelsea þurfti því að leika með tíu leikmenn gegn ellefu síðustu tuttugu mínútur leiksins.

Fámennu liði Chelsea gekk erfiðlega að vinna sig inn í leikinn að nýju, Arsenal vann 2-1 og er því enskur bikarmeistari. Þá er ljóst að liðið tekur þátt í Evrópudeildinni á komandi leiktíð á kostnað Wolves sem lenti í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar í ár, sæti ofar en Arsenal.

Bikartitill Arsenal er þeirra fjórði á sjö árum en Arsenal lyfti titlinum árin 2014, 2015 og 2017. Knattspyrnustjórinn Mikel Arteta vann fyrrnefndu titlana tvo sem leikmaður liðsins. Hann fetar með titli dagsins í fótspor Skotans George Graham, sem var áður sá eini sem hafði unnið FA-bikarinn sem bæði leikmaður og þjálfari Arsenal, sem leikmaður 1971 og sem þjálfari 1993.

Þá er þetta í fjórtánda sinn sem Arsenal vinnur bikarinn, oftast allra, en Manchester United kemur þar á eftir með tólf bikartitla.