Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Á þing, verði endurhæfing fanga ekki að lögum

Mynd með færslu
 Mynd: Andri Freyr Viðarsson
Guðmundur Ingi Þóroddsson formaður Afstöðu félags fanga segist í samtali við Fréttablaðið í dag geta hugsað sér framboð til Alþingis.

Hann muni gefa kost á sér standi stjórnmálamenn ekki við loforð um breytingar á löggjöf sem miði að raunverulegri endurhæfingarstefnu fyrir þau sem brjóti af sér.

Með slíkri löggjöf væri að sögn Guðmundar Inga hægt að lækka kostnað hjá lögreglu, dómstólum, fangelsiskerfi og heilbrigðiskerfi auk þess sem betri mönnum væri skilað út í samfélagið.

Mikilvægast segir Guðmundur þó vera að með slíkri stefnu fækkaði brotaþolum. Þótt ekki væri alltaf hægt að koma í veg fyrir fyrstu brot fólks væri hægt að koma í veg fyrir að þau endurtækju sig.

Guðmundur Ingi álítur sig, vegna reynslu sinnar, góðan valkost fyrir stjórnmálaflokk sem vilji vinna með honum að velferðar- og fangelsismálum.