Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

36 skipverjar á einu skipa Hurtigruten með Covid-19

01.08.2020 - 19:02
Erlent · COVID-19 · Evrópa
epa08579016 A general view on the expedition ship MS Roald Amundsen at quay in Tromso, Norway, 01 Agust 2020. According to reports, 33 crew members on the expedition ship MS Roald Amundsen have been tested positive for coronavirus infection.  EPA-EFE/RUNE STOLTZ BERTINUSSEN NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB SCANPIX
36 skipverjar á einu skipa norska skipafélagsins Hurtigruten greindust með Covid-19 í gær og í dag, en skipið er á ferð upp með ströndum Noregs og um 200 farþegar fóru frá borði fyrr í vikunni. Skipið sem heitir eftir norska heimskautafaranum Roald Amundsen kom til hafnar í Tromsö í gærmorgun en þá var enginn grunur um smit um borð, að sögn forsvarsmanna Hurtigruten.

158 starfsmenn Hurtigruten voru um borð og 36 greindust með Covid-19 en enginn þeirra var með einkenni, samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins. Fjórir skipverjar höfðu áður greinst með sjúkdóminn og eru nú á sjúkrahúsi. Hátt í fjögur hundruð farþegar eru í sóttkví en forsvarsmenn félagsins hafa verið gagnrýndir fyrir að bregðast ekki nógu snemma við.

Hurtigruten gerir út skemmtiferðaskip sem sigla með ströndum Norðurlandanna, einkum í Skandinavíu, en nokkur þeirra hafa komið við hér á landi undanfarin sumur á ferð sinni um norðlægari slóðir. Kórónuveirufaraldurinn hafði mikil áhrif á fyrirtækið og önnur í þessum geira en Hurtigruten greindi frá því í byrjun mars að nær öllum ferðum skipa félagsins hefði verið aflýst vegna faraldursins. Í júní og júlí var ákveðið að auglýsa nokkrar ferðir og reksturinn var að taka við sér. Þetta er því mikið högg fyrir fyrirtækið, að sögn forsvarsmanna þess.

Gunnar Wilhelmsen, bæjarstjóri í Tromsö, segir að nú sé unnið að því að ná til allra farþega sem voru um borð í síðustu ferð til að kanna hvort þeir hafi veikst. Ekki hefur tekist að ná til tuttugu farþega. Rúmlega 9.200 hafa nú greinst með Covid-19 í Noregi og 256 látist vegna sjúkdómsins. Norskir sérfræðingar í smitsjúkdómavörnum sögðu við norska ríkisútvarpið nú síðdegis að faraldurinn væri ekki á förum og Norðmenn eins og aðrir yrðu líklega að lifa með honum út næsta ár, hið minnsta. Það sé mjög ólíklegt að næsta sumar verði allt eins og áður, og bæði tónleikasalir og íþróttaleikvangar fullir af fólki. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV