Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Virðist vera komin ný bylgja af faraldrinum“

31.07.2020 - 14:29
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekki hefur tekist að rekja uppruna smitsins í umfangsmikilli hópsýkingu sem er í gangi núna og segir sóttvarnalæknir það ákveðið áhyggjuefni. Ekki sé vitað hvernig hún hefur komist til landsins og óljóst er hvort yfirvöld komist nokkurn tímann að því. „Í þessari hópsýkingu getum við sagt að sýkingavarnir innanlands hafi brugðist.“ Verulega hafi verið slakað á í einstaklingsbundnum sóttvörnum hjá öllum. Forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir að svo virðist sem ný bylgja sé komin.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þórólfur sagði að hin hópsýkingin sem væri í gangi núna væri minni en að sennilega hefði verið hægt að koma í veg fyrir hana með sýnatöku tvö. Því væri verið að skerpa á reglunum um hana. 

Þórólfur sagði þessa aukningu ákveðin vonbrigði en þetta hefði ekki verið óviðbúið. Faraldurinn væri í sókn í heiminum og hefði verið að ná sér á strik í mörgum löndum. „Við höfum líka sagt að það gætu blossað upp hópsýkingar og að þegar til lengri tíma litið væri vonlaust að koma í veg fyrir að veiran berist til landsins.“

Þórólfur sagði að með þeim aðgerðum sem tóku gildi í dag væri verið að reyna að lágmarka dreifingu innanlands. Þær væru vissulega íþyngjandi fyrir marga en gripið væri til þeirra til að forða okkur frá útbreiddum faraldri. Yfirvöld væru tilbúin að bregðast enn harðar við. „Það tekur eina til tvær vikur að sjá árangurinn. Ef sjáum ekki árangur þá þurfum við að bregðast við því.“

Þórólfur sagði brögð  að því að fólk mætti á mannamót með einkenni og í vinnu. Þetta mætti ekki gerast. „Ég er sannfærður um að með öllum þessum aðgerðum og þeirri samstöðu sem við höfum sýnt muni okkur takast að halda veirunni í lágmarki.“

Óskar Reykdalsson, forstjóri heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, fór yfir sýnatökur og hvatti fólk til að hafa samband í gegnum heilsuveru til að komast í sýnatöku. Hann sagði að svo virtist sem ný bylgja af faraldrinum væri komin. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV