Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Veikindin mín í vor voru COVID-19“

Mynd með færslu
 Mynd: Alexandra Ýr
„Ég var að komast að því núna eftir mótefnamælingu hjá ÍE að veikindin mín í vor voru COVID,“ skrifar Alexandra Ýr van Erven í Twitter-færslu í dag.  

Alexandra veiktist í lok mars og bað um sýnatöku í tvígang. Henni var sagt að flensan í ár væri slæm og þar sem hún væri ekki nýkomin frá áhættusvæði og hefði ekki umgengist smitaða gæti hún ekki komið í sýnatöku. Alexandra fór síðar í mótefnamælingu hjá Íslenskri erfðagreiningu og fékk þær fréttir í dag að hún hefði mótefni gegn veirunni.  

Hafði öll einkenni COVID-19 

„Ég var veik í vor og hafði öll einkennin sem hafa verið tengd við COVID-19. Þetta var á þeim tíma sem var skortur á sýnatökupinnum og ég er ekki í áhættuhópi. Þannig ég skil svo sem alveg að ég hafi ekki verið prófuð,“ segir Alexandra í samtali við fréttastofu. 

„Mér var sagt að það væri mjög slæm flensa í gangi. Og ég hafði engar forsendur til að véfengja svör heilsugæslunnar. Maður vill ekki vera vænisjúkur,“ segir hún. 

„En þar sem ég fékk ekki greiningu hélt ég að slenið og þreytan sem plöguðu mig mikið út önnina (og að einhverju leyti enn) væru örugglega bara afleiðing þess að mér þætti erfitt að halda mig heima, rútínuleysið o.s.frv,“ skrifar hún á Twitter. 

Fór í sjálfskipaða sóttkví 

Alexandra segist hafa verið nær sannfærð um að hún hefði COVID-19. Hún hafi þess vegna farið í sjálfskipaða sóttkví. „Ég gat verið heima að læra. En svo var þetta hálfgerð jafnvægislist. Manni fannst maður kannski vera að gera of mikið úr líðaninni af því maður var ekki með neina greiningu,“ segir hún. Það hafi verið erfitt að vera sannfærð um að vera smituð en fá það ekki staðfest. 

Hún segist þá helst hafa getað smitað áður en hún varð veik. „Ég vona auðvitað að ég hafi ekki smitað neinn,“ segir hún. Nokkrir í fjölskyldunni hennar séu í áhættuhópi og því hafi hún ákveðið að umgangast þau ekkert. 

Aðspurð segist Alexandra ekki vita af fólki í kringum sig sem hafi veikst. 

Léttir að fá staðfestingu 

„Mér brá rosalega mikið. En það var líka ákveðinn léttir að fá staðfestingu á því að maður hafi ekki bara verið vænisjúkur og að það hafi verið skiljanleg ástæða fyrir líðaninni,“ segir Alexandra, aðspurð hvernig henni hafi liðið við að fá niðurstöðu úr prófuninni.  

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV