Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tómur dalur á föstudegi á þjóðhátíð ekki sést í 105 ár

Mynd: RÚV / RÚV
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir það létti að búið hafi verið að taka ákvörðun um að aflýsa Þjóðhátíð með fyrirvara. Það sé þó mjög skrýtin tilfinning að brekkan í Herjólfsdal sé tóm.

„Auðvitað er þetta mjög skrýtið,“ sagði Íris í kvöldfréttum RÚV. Hún segir þetta ábyrga afstöðu í ljósi aðstæðna og að fólk sé ánægt. „Það eru allir sáttir en það er ákveðinn tómleiki, það vantar rosa mikið. Tómur dalur á föstudegi á þjóðhátíð er eitthvað sem ég hef ekki séð og hefur ekki sést í 105 ár.“ 

Súrrealískt og mjög erfitt

Jónas Guðbjörn Jónsson, formaður Þjóðhátíðarnefndar, tók í sama streng. „Þetta er stórt tekjutap.“ Hann segir vinnu fara í gang eftir helgi til að byrja að brúa það bil. „Við erum með vindinn í fangið en við tókum ábyrga afstöðu um að aflýsa þjóðhátíð.“

„Þetta er bara mjög erfitt, súrrealískt og skrýtið,“ sagði Jónas Guðbjörn aðspurður um hvernig það var að horfa upp á tóman Herjólfsdal.