Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Tjaldsvæðinu á Akureyri skipt í fjögur hólf

31.07.2020 - 15:31
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Tómas Einarsson - RÚV
Gera þarf ráðstafanir á tjaldsvæðum vegna hertra aðgerða. Víða er hætt að taka á móti nýjum gestum og tjaldstæði laga sig að nýjum reglum. Á Akureyri hafa ýmsar ráðstafanir verið gerðar.

Víða hætt að taka við gestum

Í Atlavík og Höfðavík á Hallormsstað er búið að skipta tjaldsvæðum niður í viðeigandi sóttvarnahólf. Það sama á við um tjaldstæðið í Ásbyrgi, Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit og á Flúðum þar sem líkt og annars staðar er uppselt þessa helgina. 

Þúsund gestir á Akureyri í nótt

Á tjaldsvæðinu við Hamra á Akureyri er töluverður fjöldi fólks. Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri á Hömrum, útilífsmiðstöð skáta á Akureyri, reiknar ekki með að geta tekið á móti nýjum gestum um helgina. 

„Það voru yfir þúsund manns hérna í nótt og þeir verða að fara niður í 400 seinni partinn í dag. Það er klárt. Við tökum ekki við fleirum fyrr en þeir sem borguðu fyrir eina nótt eru farnir,“ segir Tryggvi. 

Mikil vinna fram undan

Eftir að nýjar sóttvarnareglur voru kynntar í gær þurftu Tryggvi og hans fólk að breyta plönum helgarinnar. Skipta þarf tjaldsvæðinu upp í fjögur 100 manna hólf og blása af skemmtidagskrá.  

„Við þurfum líka að bakka út úr því sem við ætluðum að gera. Við vorum hérna búnir að undirbúa stórt ævintýraland fyrir krakkana en úr því urðum við að bakka. Svo erum við að reyna að fækka starfsfólki. Við vorum komnir með 40 manns í vinnu um helgina því venjulega eru um og yfir 2000 manns hérna þessa helgi.“