Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Tjaldsvæði full og veitingastaðir uppbókaðir

31.07.2020 - 19:24
Mynd með færslu
 Mynd: Úlla Árdal - RÚV
Margir eru á faraldsfæti og vísa þurfti fólki frá tjaldsvæðum í dag vegna nýrra fjöldatakmarkana. Veitingahús á Akureyri eru mörg fullbókuð um helgina. Fólk er beðið um að sýna þolinmæði.

Fjöldi fólks var mættur til Akureyrar í dag áður en hertar samkomureglur tóku gildi. Undir venjulegum kringumstæðum væri allt sneisafullt og iðandi af lífi á tjaldsvæðinu hérna á Hömrum en nú er raunin töluvert önnur. 

„Allir sem komu í gær, þeir fengu bara að kaupa eina nótt. Við vorum með þúsund manns í nótt og núna er fólk að tygja sig í burtu og við þurfum að vera komin seinni partinn niður í 400 manns hérna,“ segir Tryggvi Marinósson, framkvæmdastjóri tjaldsvæðanna á Akureyri. 

Uppselt á mörgum tjaldsvæðum um helgina

Tjaldsvæði hafa þurft að gera ráðstafanir vegna hertra aðgerða. Í Atlavík og Höfðavík á Hallormsstað er búið að skipta tjaldsvæðum niður í viðeigandi sóttvarnahólf. Það sama á við um tjaldstæðið í Ásbyrgi, Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit og á Flúðum þar sem líkt og annars staðar er uppselt um helgina. 

Tryggvi segir fólk sýna þessu skilning en gærdagurinn hafi verið ansi strembinn. Fólk hafi verið stressað og viljað fá svör um framhaldið strax og margir hafi ekki áttað sig á því að þetta hafi verið yfirvofandi. Hann segir alltaf einhverjar hræringar svo einhverjir eigi mögulega eftir að fara af svæðinu á morgun og nýir geti þá komið í staðinn. 

Heim í öryggið

Ómar Þór Ómarsson, ferðalangur á Hömrum, ætlaði austur á leið í dag en segir rigninguna og spána fyrir Austurland ekki heillandi. Hann ætli því að halda heim á leið. Nýjustu fréttir af farsóttinni hafi líka áhrif og stemningin á tjaldsvæðinu hafi breyst mikið síðasta sólahringinn; „Það hjálpaði náttúrulega ekkert að sjá alla vera komna með grímu í skálanum og við erum búin að sjá fleiri sem eru að fara svo við ákváðum bara að drífa okkur og vera örugg um verslunarmannahelgina,“ segir Ómar Þór.

Fullbókað á veitingastöðum

Hótel á Akureyri eru vel bókuð um helgina og veitingastaðir voru margir orðnir fullbókaðir í gær. Dagurinn hjá þeim hefur því farið í að endurskipuleggja.

„Við þurfum að raða öllum sem áttu pantað og hliðra til, en við komum öllum í sæti með smá púsluspili,“ segir Einar Geirsson eigandi K6 veitinga sem rekur fjóra veitingastaði á Akureyri. Hann hafi hins vegar áhyggjur af öllu því fólki sem þurfi að gefa að borða en komist ekki að og biður fólk að sýna þolinmæði.