Þjálfari Stjörnunnar: „Við erum bara í limbói“

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV

Þjálfari Stjörnunnar: „Við erum bara í limbói“

31.07.2020 - 19:01
Heilbrigðisyfirvöld gáfu það út í dag að engar íþróttaæfingar eða keppnir fullorðinna með snertingu skulu stundaðar til 13. ágúst næstkomandi samkvæmt tilmælum frá heilbrigðisyfirvöldum. Þetta hefur áhrif á Íslandsmótið í knattspyrnu sem var í fullu gangi þegar tímabundið hlé var gert á því sökum fjölgun smita hér í landi.

„Við erum bara í limbói, við vitum ekkert. Megum við æfa eða megum við ekki æfa, við í raun og veru bíðum skýrari svara frá forystu Knattspyrnusambands Íslands,“ sagði Ólafur Jóhannesson annar þjálfara Stjörnunnar í úrvalsdeild karla í samtali við RÚV í dag. Stjarnan er eitt þeirra liða sem fór í sóttkví eftir að smit greindist innan þeirra raða í lok júní. Liðið er því þremur leikjum á eftir flestum liðum í deildinni og ljóst að ekki mátti mikið út af bregða hjá Garðbæingum.

„Við erum nú þegar búnir að ganga í gegnum eitt sóttkvíar æfingaferli þar sem einn miður æfði á hálfum velli og annar á hinum helmingnum, fyrstu menn mættu klukkan 07:00 á daginn og síðustu menn voru að mæta í kringum 17:00. Það tók gríðarlega á andlega og líkamlega fyrir þjálfara og leikmenn,“ bætti Ólafur við.

Svar sóttvarnalæknis til ÍSÍ í dag var eftirfarandi:

1. Að gert verði hlé á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi eða þar til núgildandi auglýsing um takmarkanir á samkomum fellur úr gildi.

2. Að æfingar og keppni í íþróttum án snertingar haldi áfram eftir því sem hægt er, að virtum reglum um fjöldatakmarkanir og nálægðarmörk skv. auglýsingu heilbrigðisráðherra.

3. Að sameiginlegur búnaður verði sótthreinsaður milli notkunar/notenda.

Uppfært 19:37

Guðni Bergsson formaður KSÍ sagði í samtali við íþróttdeild RÚV rétt í þessu að félög ættu að fara varlega um helgina þegar kemur að æfingum. „Við þurfum að sjá hvernig næstu dagar fara og málin verða skoðuð á ný eftir helgi,“ og bætti enn fremur við „við verðum að hafa það í huga að yfirvöld eru að reyna að fara varlega og passa upp á að faraldurinn fari ekki aftur af stað, það er fyrsta áskorunin og markmiðið í þessu öllu saman,“ sagði Guðni í samtali við RÚV. Eins og staðan er núna eru tilmæli til félaga að fara einstaklega varlega til 13.ágúst en lesa má úr reglunum að sé búnaður sótthreinsaður og tveggja metra reglunnar gætt sé í lagi að æfa í litlum hópum líkt og áður í faraldrinum.