Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Stormur og vatnsveður á Suðausturlandi og Austfjörðum

31.07.2020 - 05:43
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi fyrir Suðausturland og gul viðvörun fyrir Suðurland og Austfirði.

Óvenju djúp lægð miðað við árstíma er fyrir sunnan land og nálgast hægt. Að sögn veðurfræðings á Veðurstofu Íslands hafði vindur þegar náð upp í 20 metra hraða á sekúndu við Ingólfshöfða á sjötta tímanum í nótt.

Á svæðinu frá Mýrdal austur í Öræfi er búist við stormi eða ríflega 20 til 24 metrum á sekúndu. Gert er ráð fyrir að veðrið verði í hámarki frá um kl. 8 árdegis fram yfir hádegi. Ekkert ferðaveður er á svæðinu.

Veðurstofan áætlar að um miðjan dag verði vindur kominn niður í 13 til 18 m/s sem mun vara fram á nótt. Storminum fylgir mikið vatnsveður á Suðausturlandi og Austfjörðum en síðdegis dregur úr úrkomunni. Það verður strekkingur í öðrum landshlutum og rigning um land allt.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV