Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Slítur viðskiptatengslum við smálánafyrirtæki

Hólmavík. Strandir. Loftmynd tekin með dróna
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Stjórn Sparisjóðs Strandamanna tilkynnti í dag að ákveðið hefði verið að slíta viðskiptatengslum við þá sem nota innheimtukerfi sparisjóðsins til þess að innheimta smálán. Innheimta og önnur umsýsla slíkra lána verður ekki heimiluð í gegnum innheimtukerfi og tengingar í nafni Sparisjóðs Strandamanna lengur.

Formaður Neytendasamtakanna, Breki Karlsson, fullyrti á dögunum að ólögleg viðskipti þrifust í skjóli Sparisjóðs Strandamanna en bankinn veitti innheimtufyrirtækinu Almennri innheimtu ehf., sem sér um innheimtu smálána, aðgang að greiðslumiðlunarkerfi bankanna. 

Breki sagði að Sparisjóðurinn væri eina fjármálafyrirtækið sem ætti í viðskiptum við Almenna innheimtu, öll önnur hafi látið af þeim eftir ábendingar samtakanna. Hann sagði Neytendasamtökin ítrekað hafa farið fram á það við Sparisjóðinn að slíta þessum viðskiptum.

Í tilkynningu Sparisjóðsins segir að stjórnin hafi í nokkurn tíma verið með til skoðunar viðskiptasambönd við þá viðskiptavini sem koma á einhvern hátt að smálánastarfsemi og að nú hafi verið gripið til viðeigandi ráðstafana til að slíta þeim. 

Jafnframt er vakin athygli á því að útgreiðsla smálána hafi aldrei verið heimil í gegnum Sparisjóðinn, hvorki í gegnum bankareikninga eða forrit með tengingar við Sparisjóðinn.