Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skoðað að skima alla landsmenn tvisvar við heimkomu

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Sóttvarnarlæknir segir til skoðunar að allir búsettir hér verði að sæta heimkomusmitgát við komuna til landsins og fara tvisvar í sýnatöku. Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að málið sé metið nú og hvort unnt sé að auka afkastagetu í sýnatöku og rannsóknum. Þórólfur segir viðbúið að fleiri smit greinist daglega næstu daga.

Flest virk kórónuveirusmit voru hér 5. apríl eða eitt þúsund níutíu og sex. Þá var talað um að fyrsta bylgja faraldursins stæði yfir. Í dag eru fimmtíu eru með virkt smit, tvö hundruð sjötíu og átta í sóttkví og ellefu ný innanlandssmit voru greind í gær. 

„Það virðist kominn ný bylgja hjá okkur eins og í öðrum löndum,“ segir Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

„Það skiptir ekki öllu máli í mínum huga hvað maður kallar þetta, hvort maður kallar þetta næstu bylgju eða aðra bylgju eða þriðju bylgju,“ segir Þórólfur.

„Þessi veira er sjálfri sér samkvæm. Hún rís upp þegar slakað er á og það kæmi ekki á óvart að við yrðum í því að herða og slaka þar til bóluefni er fram komið,“ segir Alma Möller.

Níu af þeim smitum sem greindust innanlands í gær voru hjá fólki sem ekki var í sóttkví. Því kann það að hafa smitað aðra. Þórólfur segir þá sem greinst hafi að undanförnu hafa verið með mikið af veirunni í sér sem geti bent til þess að þeir séu meira smitandi en aðrir. Það valdi áhyggjum að ekki hafi tekist að rekja uppruna annarrar af þeim tveimur hópsýkingum sem nú eru í gangi.

„Miðað við það hvernig þetta hefur verið undanfarna daga þá getum við búist við að sjá fleiri tilfelli á hverjum degi áfram og hversu lengi það varir veit ég ekki en ég minni á að þessar aðgerðir sem við erum að grípa til núna það tekur eina upp í tvær vikur að sjá árangur,“ segir Þórólfur.

Sýnataka hjá fólki með einkenni og skimun Íslenskrar erfðagreiningar eigi að varpa betra ljósi á málið. Þórólfur segir að staðan nú gefi hugsanlega tilefni til að útvíkka heimkomusmitgát.

„Núna er þetta þannig að það eru bara einstaklingar sem eru að koma frá áhættulöndum sem þurfa að fara í þetta. Það má hins vegar vel vera við þurfum að breyta því yfir í alla einstaklinga sem ætla að vera hérna. Við erum að skoða hvort við höfum getu til að gera það,“ segir Þórólfur.

Hann segir að aðgerðir gegn faraldrinum séu í sífelldri skoðun. Hugsanlegt sé að Danmörk og Þýskaland verði tekið út af lista yfir örugg lönd. Fram kom á fundinum í dag að til skoðunar sé hvort fjöldatakmarkanir eigi að vera aðrar fyrir matvöru- og lyfjaverslanir líkt og í vor og hvort heimilt verði að hólfa niður verslanir.