Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Pósthúsinu á Selfossi lokað og starfsmaður í sóttkví

31.07.2020 - 14:09
Birgir Jónsson
 Mynd: Fréttir
Búið er að loka pósthúsinu á Selfossi eftir að starfsmaður þar var sendur í sóttkví. Ljóst er að töluverð röskun verður á póstþjónustu á svæðinu í dag en búist er við því að starfsemin verði með hefðbundnu sniði strax eftir helgi.

„Öryggið á oddinn“

Birgir Jónsson, forstjóri Póstsins, segir að auk starfsmannsins sem sem sendur verður í sóttkví þá verði allir samstarfsmenn hans skimaðir fyrir veirunni. „Hér verða engir sénsar teknir. Bara öryggið á oddinn,“ segir Birgir.

Hann segir ljóst að lokunin hafi töulverð áhrif á þjónustu en ráðstafanir verði gerðar til að keyra út þeim pósti sem hægt er í dag. „Þetta er auðvitað töluverð röskun en við erum í góðri æfingu frá því í vetur. Strax eftir helgi koma aðrir starfsmenn á pósthúsið og starfsemin fer í rétt horf.“

Á þriðja hundrað í sóttkví

Á þriðja hundrað er nú í sóttkví og má reikna með að þeim fjölgi ört næstu daga. Ljóst er að faraldurinn mun hafa töluverð áhrif á fleiri fyrirtæki næstu daga en níu af þeim ellefu sem greindust með innanlandssmit í gær voru ekki í sóttkví. Hertar reglur tóku gildi í dag, samkomubann er nú bundið við 100 í stað 500.