Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ómögulegt að meta aukinn kostnað heilbrigðiskerfisins

31.07.2020 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Komið verður til móts við kostnað heilbrigðiskerfisins vegna COVID-19 faraldursins í fjáraukalögum sem koma fyrir þingið í haust. Þetta segir Haraldur Benediktsson.varaformaður fjárlaganefndar Alþingis. Hann segir ómögulegt að meta hversu mikill þessi kostnaður verði.

Haraldur segir að huga þurfi að stöðu allra heilbrigðisstofnana á landinu, ekki eingöngu Landspítala, engin þeirra sé undanskilin þegar komi að auknum kostnaði vegna faraldursins.

„Við höfum líka áréttað í okkar meirihlutaáliti um stöðu hjúkrunarheimila, bæði vegna COVID-faraldurs og til lengri tíma fjármögnun og fjárhagsvanda þeirra.“

Tölurnar breytast dag frá degi

Spurður hvort hægt sé að áætla um hversu mikla kostnaðaraukningu gæti verið að ræða segir Haraldur það vera ýmsum erfiðleikum bundið. „Þetta er verulegur kostnaður eins og sést á umfangi aðgerða sem Landspítali og heilbrigðiskerfið eru að grípa til. En hann breytist dag frá degi, nánast, og það er ómögulegt á þessari stundu að segja að við vitum hann.“

Haraldur segir að hugsanlega þurfi heilbrigðisstofnanir á auknu fjármagni að halda næstu árin vegna ýmissa afleiðinga faraldursins. „Ég ætla ekkert að útiloka það, hvort sem það er til Landspítala eða annarra þátta heilbrigðiskerfisins vegna þessa faraldurs og afleiðinga hans. Það vitum við ekki ennþá.“