Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ný staða komin upp, segir Þórólfur

31.07.2020 - 13:08
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Upp er komin ný staða í kórónuveirufaraldrinum hér á landi eftir að níu einstaklingar, sem ekki höfðu verið í sóttkví, greindust með smit í gær. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Hann segir að ekki liggi fyrir hvort tengsl séu á milli þeirr sem greindust í gær.

Þórólfur segir að ekki sé vitað hvernig þeir níu,sem greindust með virkt kórónuveirusmit í gær og voru ekki í sóttkví, smituðust. „Smitrakning er í gangi og það á eftir að gera frekari raðgreiningar á veirunni. Þannig að við þurfum að sjá betur hvort þetta sé sami uppruni og tengist hinum hópsýkingunum, annarri hvorri sem er í gangi.“

Þórólfur segir að á þessari stundu sé ekki ljóst hvort tengsl séu á milli þeirra sem greindust í gær. Smitrakningin muni vonandi leiða það í ljós.

Rakning mun leiða meira í ljós

Þórólfur segir að það, að þeir sem nú hafa greinst og ekki verið í sóttkví hafi væntanlega verið úti í samfélaginu fram að greiningu. „Og gætu því hafa smitað út frá sér. Þeir sem eru í sóttkví eiga ekki að geta smitað fólk. Þannig að það er betra að hafa þá sem greinast í sóttkví. Það er alveg klárt. En frekari rakning á eftir að leiða þetta betur í ljós.“

Hann segir að nú sé komin upp ný staða í þróun faraldursins þar sem svo margir þeirra sem hafi greinst hafi ekki verið í sóttkví. „Við settum á sínum tíma alla í sóttkví sem voru að koma erlendis frá skíðasvæðum sem voru síðan að greinast. Við vissum strax um uppsprettuna og gátum einangrað þá betur. En núna erum við hinsvegar með smit í gangi sem er búið að vera í einhvern tíma. Við vitum ekki nákvæmlega hversu lengi. Það er líka nokkuð ljóst að einstaklingar með einkenni veikinnar eru að ganga um, þeir eru að mæta í vinnu og smita út frá sér.“

Þórólfur segir að enn á ný biðli hann til fólks um að  halda sig heima, sé það er með einkenni, sem gætu átt við Covid-19. „Hafa samband við heilsugæsluna og fá sýnatöku. Að vera ekki að blandast innan um aðra,“ segir Þórólfur.