Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Maður horfði upp á fólk deyja"

Mynd: RÚV / RÚV

„Maður horfði upp á fólk deyja"

31.07.2020 - 09:51

Höfundar

„Það kom stríð 1992, við þurftum að flýja. Ég flutti frá mínum litla bæ þannig ég var flóttamaður innan landamæra eins og maður segir. Við þurfum að flýja í borg sem er svolítið stór, svipað og Reykjavík, jafnvel stærra. Við bjuggum þar til 1996 og síðan komum við til Íslands,” segir Jasmina Vajzovic Crnac.  

Jasmina var gestur Viktoríu Hermannsdóttur í þættinum Segðu mér. Hún er alin upp í Bosníu- Hersegóvinu en kom sem til Íslands árið 1996 eftir að hafa búið við stríð í fjögur ár. Hún segir að áður en að stríðið hafi skollið á hafi æska hennar verið góð. 

Venjuleg æska fyrir stríð
„Fólkið var dæmigert, bjó eins og Íslandi þá. Foreldrar mínir voru þokkalega vel stæðir, svona millistétt, bæði í vinnu. Pabbi kláraði háskólanám og mamma var að vinna sem skósmiður. Við áttum rosalega góða æsku,” segir Jasmina en í bænum sem hún bjó fólk af sautján mismunandi þjóðarbrotum. 
„Á þeim tíma var ekki mikið spáð í hversu trúaður eða hvaða þjóð maður var af. Maður bjó bara í gömlu Júgóslavíu, í landi sem hét Bosnía og fór í útilegur, fór í frí með foreldrum. Fjölskyldur hittust og gerðu ýmislegt saman,” segir Jasmina en það átti eftir að breytast hratt.

Þegar stríðið skall á var sótt að fjölskyldu Jasminu vegna þess að þau voru Bosníu-múslima, þó að þau hafi ekki verið sérlega trúuð. 

Einkenndist af ótta
 „Allt í einu uppgötva ég að ég var öðruvísi en allir aðrir. Sem er mjög erfitt. Þú ert farin að skynja heiminn og þroskast. Allt í einu það sem voru vinir manns alla ævi, allt í einu uppgötvar þú að getur ekki leikið við þá. Allir passa upp á sitt og þá fyrst uppgötvaði ég að ég væri ekki samþykkt inn í samfélagið. Ég væri bara öðruvísi. Og það var mjög erfitt af því allt í einu þá missirðu bara öll tengsl við vini sem þú ert kannski búin að alast upp með,” segir hún. „Þetta einkenndist rosa mikið af ótta. Það var ógn að fara í skólann, það var endalaust pikkað í mann fyrir að vera Bosníu-múslimi. Samt tek ég fram, fjölskyldan mín var ekki trúuð einu sinni. Við bara fæddumst í samfélag, bara eins og margir Íslendingar fæðast inn í sitt samfélag, eru skírðir og fermdir en ekkert endilega iðka trúna sína. Það var sama með okkur, fæddumst inn í þetta samfélag og bara urðum þetta sem við erum.” 

Horfði upp á fólk deyja
Lítið var um mat og hluti sem flestir telja sjálfsagða. Fjölskyldan missti heimili sitt. „Foreldrar mínir voru ekki í vinnu þannig það var ekki matur. Fólk var að svelta. Margir áttu ekki fyrir matnum. Margir áttu ekki föt eða nauðsynjar, húsgögn, alls konar. Við vorum ekki með rafmagn, ekki með hita. Þarna var stríðsástand. Sprengjurnar voru að koma, maður horfði upp á fólk deyja. Stundum kom það bara óvænt. Stundum var varað við,” segir Jasmina.
„Stundum vikum saman fór maður ekki í skóla af því það var hættuástand. Þú ert alltaf í stöðugum ótta,” segir hún. 

Hlusta má á ótrúlega lýsingu Jasminu af því hvernig er að búa við stríðsástand í viðtalinu sem hlusta má á heild sinni hér að ofan, hér og í öllum helstu hlaðvarpsveitum. Þar segir hún einnig hvernig kom til að hún fór til Íslands og hvernig hún notar reynslu sína til þess að hjálpa öðrum í störfum sínum í dag.

 

Tengdar fréttir

Erlent

Óttaðist um líf sitt hvern dag í Bosníu-stríðinu

Evrópa

Um 500 ákærðir fyrir stríðsglæpi í Bosníu

Evrópa

Bosníumenn aðlaga sig vel í Danmörku

Erlent

Draumurinn um Júgóslavíu