Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Icelandair stefnir á að ljúka samningum í næstu viku

31.07.2020 - 23:02
Mynd með færslu
 Mynd: Kristján Þór Ingvarsson - RÚV
Icelandair stefnir á að klára að semja við kröfuhafa sína í næstu viku. Samningaviðræður við kröfuhafa eru vel á veg komnar, segir í tilkynningu frá félaginu í kvöld, en þeim er ekki lokið.

Sagt er að félagið hafi nú undirritað samninga við flesta kröfuhafa og náð samkomulagi í meginatriðum við þá sem eftir eru. Félagið gerir ráð fyrir að þeir samningar verði undirritaðir í næstu viku. 

Lán með ríkisábyrgð háð öflun nýs hlutafjár

Þá hefur verið unnið að útfærslu á láni með ríkisábyrgð með íslenskum stjórnvöldum, Íslandsbanka og Landsbankanum og segir í tilkynningu að þær viðræður séu langt komnar.

Samkomulag við helstu hagaðila Icelandair Group er forsenda þess að félagið geti hafið fyrirhugað hlutafjárútboð og lokið við fjárhagslega endurskipulagningu félagsins.

Nýundirritaðir kjarasamningar sem félagið gerði við stéttarfélög flugmanna, flugfreyja og flugþjóna og flugvirkja  eru háðir því að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár og geri samning um lánalínu með ríkisábyrgð.

Lánafyrirgreiðsla stjórnvalda verður meðal annars háð því að félagið nái markmiðum sínum um öflun nýs hlutafjár. Þá eru samningaviðræður við Boeing vel á veg komnar en viðræðurnar snúast um frekari bætur vegna kyrrsetningar MAX vélanna og að breytingar verði gerðar á áætlun um framtíðarafhendingu MAX flugvéla, segir í tilkynningu. 

Stefna á að ljúka hlutafjárútboði í ágúst

Þegar allir samningar liggja fyrir mun félagið birta fjárfestakynningu með ítarlegum upplýsingum fyrir fjárfesta og þátttakendur í fyrirhuguðu hlutafjárútboði. Í kjölfarið verður skráningarlýsing birt en gert er ráð fyrir að hlutafjárútboði muni ljúka í ágúst. Upplýsingar um fjölda útgefinna hluta og gengi verða birtar um leið og ákvörðun stjórnar félagsins um þau atriði liggur fyrir.