Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hvorki tveggja metra regla né grímuskylda í strætó

Mynd: RÚV / RÚV
„Þó við höfum notað orðið grímuskylda þá var nú ekki meiningin að gera þetta að skyldu,“ segir Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, um tilkynningu sem Strætó sendi frá sér í morgun. Í tilkynningunni kom fram að farþegum yrði skylt að bera grímur í strætó.

Nú er útlit fyrir að hvorki verði í gildi tveggja metra regla né grímuskylda í strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu. Viðtal fréttastofu við Jóhannes má horfa á í spilaranum hér að ofan og lesa hér að neðan. 

Verður farþegum strætó skylt að vera með andlitsgrímur?

Nei, þó við höfum notað orðið grímuskylda þá var nú ekki meiningin að gera þetta að skyldu. Við skildum tilmælin sem komu fram á blaðamannafundinum þannig að það væri skylda að vera með grímur í almenningssamgöngum. En þetta litaðist af því að við náðum ekki nógu góðu samtali við sóttvarnaryfirvöld áður en þetta var sent út. Nú höfum við gert það og skýrt þetta betur. Það verður ekki grímuskylda og það verður engum farþega meinuð innganga í vagnana. Og við munum senda frá okkur síðar í dag ný tilmæli til viðskiptavina og okkar bílstjóra.

Verður tveggja metra reglan tryggð í strætisvögnum?

Það er ekki hægt að tryggja tveggja metra regluna í strætisvögnum. Enda eru þessar ferðir með innanbæjaralmenningssamgöngum eins og strætó oftast stuttar. Þó þær geti alveg teygst upp í klukkutíma þá er lunginn úr ferðunum svona 5-35 mínútur.

Hafiði tekið eftir aukinni grímunotkun hjá ykkar farþegum frá því í gær og í dag eftir að þær tóku gildi?

Já, við eins og aðrir sáum að það voru keyptar 30-40 þúsund grímur í gær og vagnstjórarnir hafa talað um það að það hafi borið aðeins á því að farþegar á stoppistöðum væru með grímur. Svo já, ég held ég geti sagt að það sé einhver aukin notkun á grímum.

En vagnstjórar hjá ykkur. Verða þeir með grímur?

Já, við útvegum okkar vagnstjórum grímur og þeir eru með þær. En eins og ég segi, við munum senda nýja tilkynningu frá okkur því við erum núna búin að skýra og ná góðu samtali við sóttvarnaryfirvöld um það hvernig þetta verður til frambúðar. Allavega á þessu tímabili.

Er það þá bara undir farþegum komið hvort þeir noti grímur eða ekki?

Já, við munum semsagt leggja það til og ég tek heilshugar undir orð Víðis Reynissonar um það að við erum öll almannavarnir og það er undir okkur komið að passa upp á þessa smithættu sem er í gangi.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV