Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Hefur bakað allt sitt brauð sjálf í 40 ár

Mynd: Pixabay / Pixabay

Hefur bakað allt sitt brauð sjálf í 40 ár

31.07.2020 - 14:02

Höfundar

Kristín Aðalsteinsdóttir, fyrrverandi prófessor við Háskólann á Akureyri, ákvað fyrir um 40 árum að baka allt sitt brauð sjálf og hefur nánast ekki keypt brauð síðan. „Ég myndi kannski ekki segja að þetta væri eitthvað skemmtilegt en þetta er notalegt og þetta er heimilislegt.“

Kristín byrjaði að baka sitt eigið brauð þegar fjölskyldan flutti í Austurdal, afskekktan dal inni í skógi í Noregi. „Það var bara ekki hægt annað en að bjarga sér og baka eigið brauð svo það gerði ég og það gerðu allir í þessum dal,“ sagði Kristín í Sumarmálum á Rás 1. Síðan þá hefur hún haldið því til streitu í hartnær fjörutíu ár. 

„Ég myndi kannski ekki segja að þetta væri eitthvað skemmtilegt en þetta er notalegt og þetta er heimilislegt og ég veit að börnunum mínum fannst voðalega gott þegar þau voru lítil að koma heim og finna brauðilm og ekki síður vinum þeirra.“

Margir setja brauðbaksturinn fyrir sig þar sem hann getur verið tímafrekur. Kristín tekur þó fram að hún hafi ávallt unnið fullan vinnudag. „En einhvern veginn þá var alltaf til heimabakað brauð hér.“ Það finnist því ýmsar leiðir til þess að baka brauð þrátt fyrir fulla vinnu. 

„Ég held að þegar fólk er komið upp á lagið með þetta þá finnur það tíma, hvort sem það er rétt fyrir kvöldmat, á kvöldin, um helgar, eða hvenær sem er.“ Sjálf bakaði hún átta brauð á laugardögum til að eiga fyrir vikuna þegar hún vann fulla vinnu og segir að það muni litlu á því hvort bökuð séu tvö, fjögur eða átta brauð í einu. 

„Mér finnst þetta vera minnsta mál vegna þess að maður bara sullar saman efnunum og leyfir deiginu að lyfta sér, og síðan þarf lyftingu númer tvö. Ég segi stundum að það eina sem skiptir máli í brauðbakstri er hiti vökvans. Ef vatnið er nákvæmlega 37 gráður, það er að segja, ef þú setur litla fingur í vatnið þá finnurðu hvorki hita né kulda, þá er vökvinn a réttu hitastigi og þá gengur allt annað vel.“

Kristín stofnaði hópinn Að baka brauð með Kristínu á Facebook fyrir um tveimur árum. Þar deilir hún ástríðu sinni á heimabökuðu brauði, og fleiru heimagerðu úr garðinum með um 4.500 meðlimum hópsins. Hver sem er getur sótt um aðgang að hópnum. 

 

Tengdar fréttir

Innlent

Bakstur orðinn daglegt brauð

Mannlíf

Samloka með skorpu, möttli og kjarna

Innlent

Tómlegt í hillum verslana – ráðast í brauðbakstur

Austurland

Notuðu kartöflur í stollen-brauðið í fátækt eftir stríð