Frægir breiða út samsæriskenningar um COVID-19

epa08030752 (FILE) - US singer Madonna performs on stage during a concert as part of her Rebel Heart Tour in Zurich, Switzerland, late 12 December 2015 (reissued 28 November 2019). According to media reports, Madonna has canceled three concerts due to 'overwhelming pain'.  EPA-EFE/WALTER BIERI
Madonna var meðal þeirra sem lögðu söfnuninni lið. Mynd: EPA-EFE - Keystone

Frægir breiða út samsæriskenningar um COVID-19

31.07.2020 - 19:18

Höfundar

Madonna, Lewis Hamilton, Evangeline Lilly og Woody Harrelson eru í hópi stórstjarna sem hafa dreift falsfréttum um COVID-19. Madonna segir að bóluefni við sýkingunni sé haldið leyndu, Hamilton hefur skellt skuldinni á Bill Gates og Harrelson telur veiruna mega rekja til 5G.

Þetta kemur fram í umfjöllun Guardian.

Madonna birti myndskeið á Instagram -síðu sinni þar sem hún talaði til fylgjenda sinna.  Þar hélt hún því fram að bóluefni við COVID-19 væri til. Því væri haldið leyndu þannig að hinir ríku gætu orðið ríkari og fátækir orðið fátækari.  Instagram brást skjótt við og fjarlægði færsluna á grundvelli reglna um upplýsingaóreiðu. 

Madonna er síður en svo eini heimsþekkti einstaklingurinn sem dreifir falsfréttum og samsæriskenningum um COVID-19.  Lewis Hamilton, ökukappinn frægi, deildi myndskeiði þar sem því var haldið fram að Bill Gates væri að ljúga til um árangurinn af bóluefni og að aukaverkunum af bóluefninu væri haldið leyndu.

Hamilton var harðlega gagnrýndur fyrir vikið og fjarlægði myndskeiðið en viðraði engu að síður áhyggjur sínar af hugsanlegum aukaverkunum af bóluefninu. Sem er ekki til, svo því sé haldið til haga.

Leikararnir John Cusack og Woody Harrelson hafa verið í hópi þeirra sem vilja tengja 5G við útbreiðslu COVID-19 og leikkonan Evangeline Lilly hefur talað um að nándarfjarlægð geri lítið sem ekkert til að hefta útbreiðslu veirunnar. Hún baðst síðar afsökunar á þeim orðum sínum.