Forsetafrúin í Brasilíu kórónuveirusmituð

epa08282244 The President of Brazil Jair Bolsonaro (R) speaks with his wife Michelle during a meeting with the Brazilian community in Florida, at Miami Dade College Medicine Campus in Miami, Florida, USA, 09 March 2020.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA
Forsetahjónin í Brasilíu, Michelle og Jair Bolsonaro. Mynd: EPA-EFE - EPA
Michelle Bolsonaro, forsetafrú í Brasilíu hefur greinst með kórónuveiruna. Forsetinn, eiginmaður hennar, var hálfan mánuð í sóttkví eftir að hafa smitast.

Forsetaskrifstofan í höfuðborginni Brasilíu tilkynnti að Michelle Bolsonaro hefði smitast. Sagt var að hún væri eigi að síður við góða heilsu, en ætlaði að fylgja öllum sóttvarnareglum.

Fimm dagar eru frá því að Jair Bolsonaro forseti losnaði úr sóttkví. Hann veiktist fyrr í mánuðinum og tók malaríulyfið Hydroxychloroquine til að ná bata. Hann hefur jafnan haldið ágæti þess á lofti, þótt sérfræðingar segi að það hafi engin bataáhrif á COVID-19 sjúklinga. Ekki hefur verið greint frá því hvort forsetafrúin hafi sömu tröllatrú á lyfinu.

Luiz Inacio Lula da Silva, fyrrverandi forseti Brasilíu, dregur í efa að Bolsonaro hafi veikst af COVID-19. Hann hafi einungis logið til um veikindin til að geta gortað af ágætum Hyndrxychloroquine við að ráða niðurlögum sjúkdómsins. Fimm af ráðherrum brasilísku ríkisstjórnarinnar hafa veikst, síðast Marcos Pontes, ráðherra vísinda og tæknimála.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi